145. löggjafarþing — 145. fundur,  5. sept. 2016.

endurbætur á Vesturlandsvegi.

830. mál
[16:52]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Það kom náttúrlega ekkert í ljós í gær eða í fyrradag að það þyrfti að fara í miklar samgöngubætur í þessu landi. Það hefur legið fyrir í mörg ár og ætti ekki að koma neinum á óvart. Það á að sjálfsögðu líka við um þá vegi sem við erum að tala um hérna. Við sjáum það bara. Umferðarþunginn hefur aukist. Það er heldur ekkert nýtt í því og það er nú frekar fjarstæðukennt að láta eins og þetta sé eitthvað nýtt vandamál sem við glímum hérna við.

Varðandi Sundabrautina hefur hún, eins og ég sagði í svari mínu, verið í undirbúningi. Það hefur ekki enn náðst endanlegt samkomulag við viðkomandi sveitarfélög hvernig eigi að haga brautinni innan þeirra marka. Ríkið getur auðvitað ekkert haldið áfram með svona framkvæmd án þess að það sé allt frágengið. Það er ekki svo enn þá og ég hygg að það sé töluvert í að það náist endanlega. Síðan er bara skynsamlegt að líta til ýmissa kosta í fjármögnun á samgöngumannvirkjum þegar við vitum að það eru ekki endalausir peningar til skiptanna. Við hefðum viljað og viljum endilega setja peninga í tiltekin velferðarmál líka og það er mjög brýnt. Því finnst mér skynsemi fólgin í að leita frekari leiða til uppbyggingar samgöngukerfisins þar sem það á við og þar sem það hentar. Það hentar alls ekki alls staðar og alls ekki búið að kveða upp úr um það hvar nákvæmlega það hentar þótt ég hafi nefnt það hér í dæmaskyni. En ég tel að menn verði að vera reiðubúnir að taka þá umræðu.