145. löggjafarþing — 147. fundur,  6. sept. 2016.

almannatryggingar.

197. mál
[20:53]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja eins og er að þessar umræður hafa þróast yfir í það að verða mjög áhugaverðar enda eitt af stóru atriðunum sem kannski eiga það til að fá fram mjög ríka umræðu í matsalnum. Ég grínast stundum með það að ef mann langar til að koma blóðflæðinu í sitt þinglega horf þarf maður ekki segja annað en staðgöngumæðrun og fara. Allir hlæja í smástund, svo nefnir einhver skoðun sína og svo kemur önnur skoðun og svo verður allt vitlaust, allt verður brjálað. En þetta er nú svona meira til gamans. Auðvitað er þetta alveg ofboðslega flókið mál í raun og veru, staðgöngumæðrun, og fólki er heitt í hamsi vegna þess að það tekur þetta alvarlega og um viðkvæm og erfið mál er að ræða.

Við stutta yfirferð á umsögnum um málið þykir mér vert að athuga það. Ég fæ ekki betur séð en að allar innsendar umsagnir um málið séu hlynntar því, nema ég átta mig ekki á hvort maður kallar það stuðning eða ekki frá Tryggingastofnun ríkisins, en ég hef merkt hana hérna „annað“ í mínum glósum en ekki sem beinan stuðning. En umboðsmaður barna, Ljónshjarta og Barnaheill, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja og Alþýðusamband Íslands virðast öll styðja málið á þeim forsendum að þarna sé verið að auka jafnræði og réttindi barna. Ég nefni það vegna þess að hv. þm. Bjarkey Gunnarsdóttir nefndi það hérna við mig í samtali úti í sal að það hefði verið gott að fá umsögn frá Siðfræðistofnun Háskóla Íslands. Ég tek undir það. Það hefði verið gagnlegt. Það er nefnilega þannig að þótt suma hv. þingmenn langi ekki til að ræða staðgöngumæðrun hér og nú þá held ég, eftir þessar umræður, að það séu akkúrat slík mál sem þarf að ræða þegar við tölum um staðgöngumæðrun.

Það er freistandi að vilja halda þeirri umræðu afmarkaðri við mál sem fjalla um það hvort heimila beri staðgöngumæðrun eða banna hana eða heimila hana með einhverri strangri umgjörð eða öðru. En ég held að málið sé þess eðlis að við rekumst á raunverulegar afleiðingar lagaumgerðarinnar einmitt þegar við förum yfir í aðra sálma eins og hérna. Hér erum við að tala um barnalífeyri, við erum ekki að tala í sjálfu sér um spurninguna hvort við séum hlynnt staðgöngumæðrun eða ekki, ekki einu sinni hvort hún hefur verið lögleg eða ekki, vegna þess að hér er ekki lagt til að hún verði gerð lögleg í sjálfu sér með þeim fyrirvörum sem hér hafa verið nefndir af öðrum hv. þingmönnum og alveg með réttu að mínu mati.

En ef við ætlum að taka einhverja ákvörðun um barnalífeyri sem varðar réttindi og jafnræði barna þá rekumst við á þetta vandamál, að við höfum tekið þessa ákvörðun um að staðgöngumæðrun skuli vera ólögleg á Íslandi. Þetta er sami vandi og við rekumst á gagnvart ríkisborgararétti, vegna þess að lög um ríkisborgararétt gera í raun og veru ekki ráð fyrir staðgöngumæðrun. Það er náttúrlega hægt að ættleiða og fólk finnur víst eitthvað út úr þessu, skilst mér, en ég veit bara að ríkisborgararéttarlögin gera ekki ráð fyrir staðgöngumæðrun vegna þess að ég hef séð tilfelli, og einungis það tilfelli, þar sem sú staðreynd er barninu til ama, auðvitað foreldrunum líka, og kemur niður á réttindum barnsins. Það er það sem mér finnst óþægilegt við þetta óháð því hvað mér finnst um staðgöngumæðrun sem slíka.

Ég trúi því ekki að við séum endilega hæf hér á hinu háa Alþingi eða almenningur, ef út í það er farið, til að meta gildi alls annars fólks gagnvart staðgöngumæðrun. Eins og þetta málefni sé nú ekki nógu viðkvæmt finnst mér það sama um vændi. Hætt er við því að fólk hugsi með sér að enginn fari sjálfviljugur í vændi eða allir fari sjálfviljugir í vændi. Auðvitað er það hvort tveggja. Auðvitað er það heill hellingur af hvoru tveggja. Það einfaldar ekkert málið. Það þýðir bara það að við þurfum að nálgast málaflokkinn í fyrsta lagi út frá raunveruleikanum, út frá því að þarna er um misjafnar forsendur að ræða, hvort sem fólki er síðan vel við þá staðreynd eða ekki. Ég álít það staðreynd, og fullyrði reyndar einfaldlega að það sé staðreynd, en það er samt misjafnt hvaða gildi fólk hefur til svona mála. Sú staðreynd ein og sér, sama hversu umdeilt þetta er meðal fólks sem hefur þó bara skoðanir á því, hlýtur að segja okkur að það er til fólk úti í þessum stóra heimi sem er raunverulega til í að lifa sínu lífi og veita þjónustu sína ókeypis eður ei, samkvæmt einhverjum gildum sem eru ekki í samræmi við gildin sem meiri hluti þingmanna íslenskrar þjóðar skrifar upp á.

Það er auðvelt að tala um einhver einstök tilfelli eða jafnvel helling af tilfellum þar sem aðstæður eru algjörlega óviðunandi og enginn hér inni mundi taka í sátt nokkurn tímann, svo sem mansal eða annað form kúgunar, en sömuleiðis eru það ekki öll tilfelli. Í sumum tilvikum er það ekki tilfellið. Þá er ábyrgðarhluti af okkar hálfu, aftur hvort sem okkur líkar betur eða verr, að taka afstöðu til þess hvort við viljum frekar umgjörð sem bætir réttarstöðu barna og fólks almennt, þá ekki síst staðgöngumóðurinnar sjálfrar, eða hvort við ætlum að hafa okkar persónulegu afstöðu, siðferðilegu afstöðu, í lögum með þeim afleiðingum að það komi niður á réttindum þess fólks sem við ætlum í annarri andrá að kalla fórnarlömb. Það er ábyrgðarhluti okkar. Ég ætla ekki að láta sem þetta sé einfalt. Ég ætla ekki að láta eins og eitt skýrt svar sé við þessu. Það er ekki tilfellið. En ég er þeirrar skoðunar að lagaumgjörð sem heimilar hluti geti gert hluti sem annars eru siðferðilega vafasamir, eða jafnvel siðferðilega fráleitir, skárri en þeir annars væru. Mér finnst það ábyrgðarhluti af okkur að taka það með inn í reikninginn. Í því felst ekki samþykki fyrir staðgöngumæðrun. Í því felst heldur ekki samþykki fyrir neinu öðru í svona viðkvæmum og erfiðum málum í samfélaginu. Það er bara hlutverk okkar að reyna að bæta réttindi fólks í þessu landi og vonandi öðrum eftir því sem það er okkar hlutverk. En við berum þessa ábyrgð.

Ég held nefnilega að annar þáttur sé í þessu sem við verðum líka að taka með inn í reikninginn að við erum að tala um ansi sterkt afl. Margt fólk hefur mjög ríka þörf fyrir að fjölga sér. Staðgöngumæðrun er eitthvað sem fólk mun gera af sambærilegum metnaði og það hefur til að eignast börn yfir höfuð, sama metnað mundi ég halda yfirleitt, vegna þess að ég hygg að ansi margir mundu brjóta landslög fyrir börnin sín. Ég held að ansi margir mundu bara ekkert skammast sín fyrir það. Það er ekki endilega réttlæting. Það er bara lýsing á raunveruleika sem við búum við og þurfum að gera ráð fyrir að mínu mati.

Ég viðraði áðan hugmynd um að refsa foreldrinu frekar en barninu, vegna þess að mér þykir afleitt að refsa barninu. Að refsa foreldrinu fyrir lögbrot sem er framið vitandi, ókei, gott og vel. Ég held samt að slíkt muni í fyrsta lagi alltaf koma niður á hagsmunum barnsins sjálfs að ósekju, það er það vandamál. En síðan held ég að það virki ekki neitt sérstaklega vel. Ég held að ef fólk er reiðubúið til þess að brjóta lögin undir núverandi fyrirkomulagi þá lýsi það bara því að þetta er sterkari hvöt en að fylgja landslögum, hvað sem okkur finnst um það. Það er nú nefnilega ekki bara skoðun okkar hérna sem stjórna hvernig heimurinn virkar, sem betur fer, mundi ég bæta við.

Ég er ekki endilega hlynntur staðgöngumæðrun sem slíkri. Ég er ekki beinlínis mótfallinn henni, ég er ekki beinlínis hlynntur henni heldur. Mér finnst þetta flókin spurning. Ég efast hreinlega um að ég hafi hæfi til þess að meta allar siðferðilegu spurningarnar í kringum það. En hins vegar treysti ég mér mun betur til að ákvarða hvaða lagaleg umgjörð sé heppileg til að ná því markmiði að tryggja sem best réttindi fólks sem þó kýs að nota þessa aðferð og réttindi barnsins sem af því verður. Það álít ég miklu frekar vera okkar hlutverk hér á Alþingi en að koma endilega okkar siðferðilega mati yfir á alla aðra, sama hversu sterkt það kann að vera.

Ég er í sjálfu sér ekki á því að mikilvægt sé að heimila staðgöngumæðrun vegna þess að staðgöngumæðrun eigi einhvern veginn eðlislega að vera heimil, heldur vegna þess að ég finn alltaf þar sem bannið við staðgöngumæðrun endurspeglast í lögum, þá kemur það niður á réttindum barnsins. Eins og ég sagði áðan í andsvari, ég skil vandann, held ég, en ég er forviða yfir lausninni. Ég sé ekki að bann við staðgöngumæðrun leysi þann siðferðilega vanda sem staðgöngumæðrun býður upp á og býður okkur að reyna að svara. Ég er algjörlega á móti því að hegna börnum fyrir þetta bann og þetta viðhorf, sama hversu réttmætt það kann að vera.

Ég sé þrjár leiðir til að meðhöndla þetta mál hérna hjá okkur, þ.e. staðgöngumæðrun eða stöðu staðgöngumæðrunar í lagatextanum. Við getum bannað þetta með tilheyrandi réttindamissi sem endurspeglast t.d. í andstöðunni við þetta frumvarp og í lögum um ríkisborgararétt og sjálfsagt má nefna mun fleiri staði í lagabálkum. Ég held að réttindamissir foreldris eða einhvers konar hegningar gagnvart foreldri, hvort sem það eru sektir eða hvað, muni alltaf á endanum lenda á barninu hvort sem er. Ég held að það dragi ekkert úr þessari hvöt, en mér finnst það þó skömminni skárra en valda beinlínis barninu réttindamissi. Ég er því ekki hlynntur þeirri leið að banna þetta með þeim afleiðingum að við ætlum þá ekki að samþykkja frumvarp eins og þetta.

Önnur leið er að hafa þetta bannað en án réttindamissisins sem við tölum hér um. Hægt er að færa rök fyrir því að það sé í raun og veru bara bann í orði og hafi lítil raunveruleg áhrif. Fyrir mér er það ekki það hræðilegasta í heiminum að lögin endurspegli siðferðilegan boðskap sem þó er ekki framfylgjanlegur í einhverjum fullkomnum lagaheimi þar sem lögin endurspegla fullkomlega okkar siðferðilegu viðmið. Það er ekki heimsendir fyrir mér. Mér finnst það pínulítið óþægilegt auðvitað, verandi svona laganörd, en mér finnst það þó skömminni skárra en að refsa börnunum verð ég að segja. Síðan er hitt að hafa staðgöngumæðrun löglega, en með einhvers konar umgjörð til þess þá að reyna að vernda réttindi fólks hvað best, staðgöngumóðurinnar sjálfrar og auðvitað fyrst og fremst barnsins.

Þá dettur mér í hug til dæmis að heimilt verði að gera þetta undir einhverjum kringumstæðum þar sem réttindi staðgöngumóðurinnar sjálfrar séu sem best tryggð eða í það minnsta ekki hvað verst, því að mikill aðstöðumunur er náttúrlega milli fólks í heiminum eins og við þekkjum. Það er ein leið. Það er ekki málið sem við erum að fjalla um hér. Eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar held ég að við lendum alltaf í þessari umræðu þegar við rekumst á vandamálið sem bannið býr til frekar en í umræðunni um hvort við sjálf viljum hafa þetta bannað eða ekki. Þannig að ég lendi einhvern veginn á þeirri niðurstöðu í samræmi við það sem ég var að segja, mér finnst að staðgöngumæðrun verði, hvernig svo sem það er orðað, heimil samkvæmt lögum, samkvæmt einhverri umgjörð sem við þurfum síðan að búa til, án tillits til skoðana fólks á fyrirbærinu sem slíku, á þeim forsendum að við eigum að vera að hugsa um réttindi barnsins fyrst og fremst og síðan réttindi staðgöngumóðurinnar enda, eins og ég segi oft um fórnarlömb mansals að ræða og því eitthvað sem við ættum að taka alvarlega og reyna að verja þau réttindi eftir fremstu getu.

Auðvitað búum við í heimi þar sem fólk hagar sér ekki eins og við viljum og við verðum bara að gera ráð fyrir því. Við verðum að taka mið af raunveruleikanum sem við búum í. Alþingi stjórnar ekki öllu í samfélaginu, sem betur fer. Það er ekki hægt að tryggja að öllum lögum sé alltaf framfylgt, sem betur fer, vegna þess að slíkt vald á hvergi heima. Á meðan tilfellið er að fólk geti brotið þessi lög og það hefur í för með sér réttindamissi sem við getum fyrirbyggt með því að horfast í augu við raunveruleikann, þá tel ég það vera á ábyrgðarhluta okkar að horfast í augu við það og hanna löggjöf og taka afstöðu til löggjafar, eins og þetta frumvarp sem við ræðum hér, með hliðsjón af réttindavernd barnsins og staðgöngumóðurinnar, en ekki út frá því hvað okkur persónulega finnst um staðgöngumæðrun sem fyrirbæri.

Að lokum vil ég segja að ég átta mig fyllilega á að þetta er ekki tæmandi umræða fyrir þetta flókna og erfiða mál. Hætt er við því í þessari umræðu að fólk verði svolítið reitt vegna þess að við erum að takast á um ákveðin grundvallaratriði. En ég hafna þeirra reiði, bæði er hún ógagnleg og sömuleiðis ónauðsynleg. Þetta er bara flókið og við eigum einfaldlega að bera virðingu fyrir því. Því álasa ég engum fyrir að vera ósammála mér um þetta jafnvel þótt við séum að tala um réttindi barna, sem er erfitt, en þá finnst mér líka mikilvægt að við getum rætt það yfirvegað og af virðingu hvert fyrir öðru og auðvitað börnunum sjálfum.