145. löggjafarþing — 149. fundur,  8. sept. 2016.

Parísarsamningurinn.

[10:39]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Í gær áttum við mjög góðar umræður um fullgildingu Parísarsáttmálans. Mig langaði í ljósi þess að það voru ekki margir í þeim umræðum að ná fram nokkrum hlutum frá hæstv. umhverfisráðherra. Mig langar í fyrsta lagi að spyrja hæstv. ráðherra að því hver nákvæmlega aðgerðaáætlunin er til að við getum fullgilt þennan samning með sóma, hvort það liggi fyrir tímasett áætlun um eitthvað annað en einvörðungu að fylla upp í skurði, sem í sjálfu sér er góðra gjalda vert en auðvitað þarf að fara varlega í þá vinnu því að ég hef ekki enn séð nákvæma útlistun á hvar á að byrja og hvar á að enda í því. Þá langaði mig líka að heyra viðhorf hæstv. ráðherra til þess hvort tilefni sé til að ganga jafnvel enn lengra og einbeita sér að því að móta einhverja stefnu um ívilnanir eða eitthvað slíkt þannig að við getum tryggt að hér sé t.d. hægt að rækta meira grænmeti. Það hefur verið talað um ákveðna stefnu í þá átt, mig minnir að það hafi verið VG sem talaði um kálver, ekki álver, fyrir margt löngu. Margir hlógu að því á þeim tíma og fannst það kjánalegt. En nú hefur orðið mikil þróun í því að rækta grænmeti með því að nýta tækniþróun er lýtur að því að stjórna t.d. vexti á grænmeti með ljósi.

Mig langaði að spyrja hvort til sé eitthvað um það, t.d. í ráðuneytinu, sem hægt væri að gera aðgengilegt og fá frekari umræður um framtíðarstefnu, sjálfbærni og langtímaáætlun um það hvernig við ætlum að fullgilda Parísarsamninginn.