145. löggjafarþing — 149. fundur,  8. sept. 2016.

byggðamál.

[11:43]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil aftur þakka hv. þingmanni fyrir að efna til þessarar umræðu.

Mig langar fyrst að segja að undanfarið höfum við verið að auka við þá fjármuni sem settir eru í sóknaráætlanir og aðrar áætlanir sem voru vissulega skornar niður. Það er í takt við batnandi fjárhag ríkissjóð sem við gerum það. Nú er það þannig að ríkisstjórnin mun skila af sér afar góðu búi þegar horft er til ríkissjóðs þannig að næsta ríkisstjórn sem mun taka við, hvernig hún verður nú skipuð, mun hafa góð tækifæri til að setja stóraukið fé í byggðamálin svo eitthvað sé nefnt.

Það er annað merkilegt í þessari umræðu, ekki bara það að ekki var minnst á flugvöllinn heldur hefur ekki verið minnst á kvótakerfið, sem er held ég líka alveg nýtt í umræðu um byggðamál.

Mig langar að koma inn á eitt af því að hér voru Vestfirðir teknir sem dæmi. Það er fullt af jákvæðum og flottum hlutum að gerast á Vestfjörðum. Við megum ekki festast í að tala eingöngu um einhverjar neikvæðar myndir. Þar er mikill uppgangur þegar kemur t.d. að eldismálum og öðru slíku. Það er fullt af skapandi fólki fyrir vestan sem er að sinna sínum erindum, en við vitum líka að innviðirnir þurfa að vera sterkir til að þetta geti blómstrað enn þá betur.

Mig langar í lokin rétt að segja að ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir mjög mikilvægum málum þegar kemur að byggðamálum eins og hér var rætt áðan, jöfnun orkukostnaðar og húshitunarkostnaðar svo dæmi sé tekið og ljósleiðaraverkefnið. Nú erum við að fara inn í þessa nýju áætlun, þessa nýju stefnu, sem er býsna mikilvæg þó að sumir telji það nú ekki. Það er auðvitað rétt að það er búið að segja margt og skrifa um byggðamál, en við þurfum að taka á ákveðnum hlutum. Við viljum nýta skattkerfið með ákveðnum hætti. Við höfum sett á fót og styrkt þennan stýrihóp sem ég nefndi áðan. Stýrihópurinn á m.a. að koma í veg fyrir það sem hefur gerst allt of oft, eða reyna að koma í veg fyrir það, orða það frekar þannig, að þegar eitt ráðuneyti ætlar sér að bæta hugsanlega við störfum eða setja fjármuni í eitthvað þá séu ekki af hálfu annars ráðuneytis eða stofnunar tekin störf á meðan, þannig að hægri og vinstri hönd séu svolítið að vinna saman, ekki að vinna hvor á móti annarri.

Síðan er það að sjálfsögðu þannig, eins og ég sagði áðan, að heimamenn þurfa að hafa svolítið mikið um það að segja hvar (Forseti hringir.) og hvernig við vinnum að byggðamálunum. Það á við um (Forseti hringir.) flestalla hluti að sjálfsögðu, samgöngur, orkunýtingu og fleira.