145. löggjafarþing — 149. fundur,  8. sept. 2016.

almannatryggingar o.fl.

857. mál
[14:28]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér er hugleikið viðtal við hv. þingmann frá því fyrir allnokkru síðan þar sem mig minnir að yfirskriftin hafi verið „Jöfnuður er ekki markmið“. Þar fór hv. þingmaður yfir hina ýmsu hópa sem eru í menginu öryrkjar og taldi þar upp hóp sem hann kallaði „plein“ aumingja. Ég hef einu sinni áður spurt hv. þingmann út í þennan hóp, hvort þessi hópur fari að hans mati stækkandi eða minnkandi, hvaða hópur þetta sé, hvort hann sé kynbundinn, þ.e. hvort í þessum hópi sé að finna jafn mikið af báðum kynjum. Mig langar líka til þess að inna hv. þingmann eftir því sem hann sagði hér áðan um að fólk vildi vinna en væri ekki búið að finna út hvað það vildi vinna. Nú vill svo illa til að sá hluti tillagna nefndarinnar um endurskoðun almannatrygginga sem lýtur að starfsorkumati komst því miður ekki á dagskrá, merkilegt nokk fyrir andstöðu Öryrkjabandalags Íslands sem ég hélt reyndar að mundi taka þessum tíðindum fagnandi, en það var ekki. En aðalspurning mín til hv. þingmanns er um þennan hóp sem hann gat um í viðtalinu frá því fyrrum og hvort hann geti upplýst mig og þjóðina um það hvaða hópur þetta sé og hvernig hann sé samsettur.