145. löggjafarþing — 149. fundur,  8. sept. 2016.

almannatryggingar o.fl.

857. mál
[14:30]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég minnist þess að hv. þingmaður hafi spurt mig að þessu áður og ég hafi svarað þessu áður. (ÞorS: … ekki svar.) Hv. þingmaður telur sig ekki hafa fengið svar. Þá reynum við bara betur enda hef ég vonandi aðeins meiri tíma til þess núna.

Það er ekki rétt að ég hafi sagt að jöfnuður væri ekki markmið. Ég sagði að í mínum huga snerist jafnaðarmennskan ekki um að allir ættu endilega það sama skilið, það væri ekki endilega réttlætismál heldur efnahagsmál. Ég er jafnaðarmaður. Ég er frjálslyndur jafnaðarmaður núna og var það þá og hef enga ástæðu til þess að skipta um skoðun þótt ég gefi því auðvitað alveg séns með tímanum. En forsendurnar fyrir því, eins og ég reyndi að útskýra í þessu viðtali, eru fyrst og fremst efnahagslegar, ekki bara réttlætissjónarmiðin þó að þau séu auðvitað líka til staðar. Ég tel að það skipti efnahagslegu máli að það sé jöfnuður í samfélaginu. Mér finnst það mikilvægt til þess að hagkerfið nýtist sem best fyrir sem flesta. Það er ekki rétt að ég hafi sagt að jöfnuður væri ekki markmið eða að það væri ekki mikilvægt. Það er markmið og það er mikilvægt og ég aðhyllist það og ég er jafnaðarmaður, þannig að það er vonandi komið á hreint. Ég vona að hv. þingmaður leyfi mér alla vega að hafa þær skoðanir sem ég ákveð sjálfur að ég hafi, ég ætla að vona að það verði ekki vefengt frekar.

Ummæli mín, ég man ekki nákvæmlega hvernig ég orðaði það, en ég notaði vissulega orðið „aumingjar“, voru ekki til þess að tilgreina einhvern hóp samkvæmt mínu viti þannig að ég get ekki svarað hv. þingmanni um kyn eða hvaða hópur það er. Það sem ég var að vísa til með þeim ummælum er viðhorfið sem margir hafa sem er að það sé hætt við því að almannatryggingar, atvinnuleysisbætur og ýmisleg slík jöfnunartæki styrki aumingja, þá sem öðru fólki finnst vera aumingjar, ekki mér. Það sem ég var að reyna að segja, er: Já, veistu hvað, það er bara allt í lagi. Það er allt í lagi að það sé einhver kostnaður, umframkostnaður, sem fari til svokallaðra aumingja sem einhverjir aðrir en ég skulu svara hvað þýði, því að það er ekki jafn mikilvægt og að passa það og að fólkið sem (Forseti hringir.) þarf á þessum tækjum að halda geti fengið þessar greiðslur. Það var í því samhengi sem ég notaði orðið, í það minnsta ætlaði að gera það. Ég vona að núna hafi ég svarað hv. þingmanni en skal glaður gera það aftur ef þetta vefst enn þá fyrir honum.