145. löggjafarþing — 149. fundur,  8. sept. 2016.

húsnæðismál.

849. mál
[15:16]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um húsnæðismál, 44/1998, með síðari breytingum.

Markmið lagabreytinganna er að finna hlutverki stjórnvalda við veitingu þjónustu í almannaþágu á húsnæðismarkaði traustan farveg til framtíðar. Lagt er til að stjórnvöld setji fram og kynni heildstæða húsnæðisstefnu með aðkomu Alþingis og að hlutverk sveitarfélaga við mótun húsnæðisstefnu sé skýrt og eflt og aðkoma hagsmunaaðila tryggð með tilkomu húsnæðisþings. Framkvæmd húsnæðisstefnu stjórnvalda er jafnframt fundinn traustur farvegur með því að skerpa á því meginhlutverki Íbúðalánasjóðs að vinna að stefnumótun á sviði húsnæðismála og vera ráðherra til ráðgjafar við mótun húsnæðisstefnu, vinna að upplýsingaöflun um húsnæðismarkaðinn og styðja við sveitarfélög við gerð og framkvæmd húsnæðisáætlana þeirra. Enda sveitarfélögin lykilaðilar þegar kemur að skipulagsmálum og að sinna félagsþjónustunni og halda utan um húsnæðismál þeirra sem minnst hafa á Íslandi.

Efni frumvarpsins byggist að miklu leyti á tillögum verkefnisstjórnar og samvinnuhóps um framtíðarskipan húsnæðismála frá árinu 2014, en í framangreindum nefndum áttu sæti fulltrúar frá bæði ríki og sveitarfélögum sem og helstu hagsmunaaðilum. Þá var horft til fyrirkomulags sambærilegra stofnana á Norðurlöndum, þá helst Húsbankans í Noregi og ARA í Finnlandi.

Í frumvarpinu eru í fyrsta lagi lagðar til breytingar á lögunum í samræmi við lög nr. 52/2016, um almennar íbúðir, og breytt hlutverk Íbúðalánasjóðs, m.a. vegna þeirra verkefna sem honum eru falin við veitingu stofnframlaga á grundvelli þeirra laga, en Alþingi samþykkti lög um almennar íbúðir nú snemma í sumar.

Eitt af meginhlutverkum sjóðsins verður að úthluta svokölluðum stofnframlögum sem ætluð eru til að styðja við uppbyggingu leiguhúsnæðis fyrir einstaklinga sem eru undir tilteknum tekju- og eignamörkum og sinna sértækum lánveitingum á félagslegum forsendum vegna markaðsbrests, hvort sem er almennt eða á einstökum svæðum.

Í öðru lagi eru lagðar til breytingar á ákvæðum sem fjalla um hlutverk sjóðsins og bókhaldslegan aðskilnað milli þeirra verkefna sem hann hefur haft hingað til og þeirra verkefna sem hann mun sinna eftir gildistöku frumvarpsins, verði það að lögum. Þessi tillaga var unnin í nánu samráði við Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitið þar sem þeir aðilar hvöttu einmitt til þess að þetta yrði skýrt með þessum hætti.

Í þriðja lagi er skerpt á hlutverki Íbúðalánasjóðs, sveitarfélaga og Alþingis í stefnumótun og áætlanagerð í húsnæðismálum. Ákvæðum um hlutverk sjóðsins er breytt þannig að stefnumótun, greiningum og áætlanagerð er gert hærra undir höfði og ákvæði um húsnæðisáætlanir sveitarfélaga og skyldu þeirra til að aðstoða þá sem eiga erfitt með að afla sér húsnæðis eru skýrð. Lagt er til að ákvæði um húsnæðisnefndir sveitarfélaganna falli brott enda hefur það svo sannarlega ekki verið virt, en verkefni sveitarfélaga verði fengin sveitarstjórn sem geti svo í samþykktum sínum ákveðið að fela öðrum aðila innan sveitarfélagsins þau. Þá er lagt til að við lögin bætist nýr kafli sem fjalli sérstaklega um stefnumótun á sviði húsnæðismála og húsnæðisáætlanir, en þar er m.a. að finna nýtt ákvæði sem fjallar um húsnæðisþing, sem halda skal á tveggja ára fresti, og skyldu ráðherra til að leggja fram þingsályktunartillögu um stefnumótun á sviði húsnæðismála til að tryggja aðkomu Alþingis.

Í fjórða lagi eru lagðar til breytingar á þeim heimildum sem sjóðurinn hefur til að veita lán til einstaklinga til kaupa á fasteignum til eigin nota. Nú hefur sjóðurinn heimild til að veita lán til kaupa á fasteignum sem eru undir ákveðnum verðmörkum auk þess sem ákveðið hámark er á fjárhæð þeirra lána sem honum er heimilt að veita, óháð staðsetningu þeirra. Breyting sú sem lögð er til hér felst í því að til þess að sjóðnum verði heimilað að lána einstaklingum til kaupa á fasteign þarf lántakandi að sýna fram á að hann fái ekki lán á ásættanlegum kjörum hjá lánastofnun vegna staðsetningar fasteignarinnar eða af öðrum ástæðum. Núgildandi ákvæði um hámarkslán og hámarksverð fasteigna munu þó haldast óbreytt.

Að lokum eru lagðar til breytingar á ákvæðum um úrræði vegna greiðsluvanda lánþega og afskriftir, ákvæði sem skipta verulega miklu máli til þess að bæta rekstur sjóðsins og draga úr áhættu ríkissjóðs.

Virðulegi forseti. Frumvarp þetta er mikilvægt framhald af þeim lögum sem samþykkt voru í vor, þá sérstaklega lögum um almennar íbúðir. Frumvarpið er líka framhald af þeim lögum sem voru samþykkt árið 2012 sem breyttu umtalsvert stöðu sjóðsins og takmörkuðu þá verulega lánaheimildir hans og þær afleiðingar sem það hefur haft. Þá tel ég líka að vönduð greining, áætlanagerð og skýr stefnumótun í húsnæðismálum sé mikilvæg til að tryggja húsnæðisöryggi landsmanna. Við höfum þegar lagt til hvað þetta varðar það sem ég vil nefna til dæmis, að í dag vorum við að kynna nýtt mælaborð þar sem við tökum saman þær upplýsingar sem eru til í húsnæðismálum, að taka hingað inn í þingið umræðu um hvernig við viljum hátta húsnæðismálum hér, þessum grundvallarrétti fólks, og hvaða sýn við höfum.

Ég vona svo sannarlega að frumvarpið verði unnið vel í þinginu og að við vinnum enn á ný má segja kannski lokahnykkinn á því verki sem verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála var falið þegar þessi ríkisstjórn tók við. Fjöldinn allur af málum hefur komið inn í þingið sem hefur byggt á þeirri vinnu og líka því samkomulagi sem náðist við aðila vinnumarkaðarins. Ég tel því að við séum að gera nákvæmlega þetta, að finna hlutverki stjórnvalda við veitingu þjónustu í almannaþágu á húsnæðismarkaði traustan farveg til framtíðar þar sem við horfum til þess hvað Norðurlöndin hafa gert og byggjum á því.

Ég leyfi mér því að leggja til við virðulegan forseta að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hæstv. velferðarnefndar og til 2. umr.