145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[14:25]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við erum komin í atkvæðagreiðslu í 3. umr. um búvörusamninga. Ég vil segja og vísa í skýrslu er nýlega var birt á vefnum og gerð er af greiningardeild Arion banka þar sem rækilega er tekið fram hve mikil framleiðniaukning hefur verið á undanförnum árum í íslenskum landbúnaði, hver verðmætaaukning hefur verið og hvernig landbúnaðurinn hefur sótt fram til aukinnar hagræðingar. Það er á þeim grunni sem við samþykkjum þessa búvörusamninga í dag. Við viljum sækja enn lengra fram á þeim sviðum, því að landbúnaðurinn þarf á því að halda. Kerfið er ekki fullkomið. Kerfi eru í þeim löndum sem við viljum helst bera okkur saman við utanumhald um bændur, um matvælaframleiðslu. Við getum endalaust rætt um þau, endalaust deilt um þau og verið ósammála um þau en í dag ætlum við að ganga áfram. Við höfum undirbúið öflugan farveg fyrir það að skapa meiri sátt um íslenskan landbúnað. Því hvet ég til góðrar samstöðu um þá afgreiðslu sem við tökum nú á hér.