145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[14:35]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Hér greiðum við atkvæði um tillögu um svokallaða upphækkun á tollverðsgengi í svokallaðri SDR-mynd. Hún er líka í boði stjórnarmeirihlutans, sem ætlaði sér í byrjun að hækka þetta viðmiðunarverð um 150%, en sá að sér og býður upp á 75% hækkun. Hér er útfærsla á því hvernig það á að gera miðað við 1. mars næstkomandi og ár hvert, að hreyfa það miðað við gengisvísitölu.

Þetta ákvæði með 75% hækkun tekur stóran hluta út af þeim ávinningi sem neytendur eiga að fá með því að fella niður tollana af sérmerktum ostum, eins og kemur hér fram á eftir og við munum styðja. Það er rétt að stjórnarmeirihlutinn hafi það í huga. Og næst þegar neytendur kaupa þessa sérmerktu osta er lækkunin ekki eins mikil og hún hefði átt að vera þegar ríkið sleppir takinu á tollinum, vegna hækkunar á viðmiðunarverðinu. Gjörið svo vel, góðir Íslendingar. Þetta er í boði sjálfstæðismanna og framsóknarmanna. (ÁPÁ: Heyr, heyr.) (BirgJ: Heyr, heyr. )