145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

853. mál
[16:05]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina en ég sagði það jafnframt í ræðu minni að ég ætla mér ekki að fjalla um kosti og galla við hvern kost sem hér er settur fram, hvort sem hann fer til hægri eða vinstri eða í orku eða vernd eða bið. Hins vegar er svar mitt vitaskuld já, ég ber velferð villtra laxa fyrir brjósti, mjög svo. Ég get líka lýst því, þó að það komi málinu sem við fjöllum um hér ekkert við, að ég held að við mættum líka fara að passa okkur talsvert í laxeldi sem við framkvæmum vítt og breitt um landið. Það sýnir að ég hef áhyggjur af villta laxinum. En það kemur þessu máli ekki alfarið við vegna þess að ég ætla mér ekki að fara ofan í það að fjalla um ákveðna galla eða kosti við þessi áform. Ég legg þetta fram með þeim rökskýringum og öðru sem kemur fram í tillögunni frá verkefnisstjórninni og þeim faghópum sem hafa starfað. Það verða mín rök í þessu máli.