145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

853. mál
[16:27]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að margir séu óöruggir með það hvað verður í framhaldinu varðandi neðri hluta Þjórsár ef þessi þingsályktunartillaga verður samþykkt. Er einhver möguleiki á að treysta því, hvað varðar þær leiðir sem eru í framhaldinu, ef farið verður út í virkjun, að þá tryggi umhverfismatið varðandi framkvæmdaleyfið enn frekari rannsóknir á því hvað seiðafleytur gera yfir höfuð?

Fagaðilar hafa mismunandi skoðanir á því hvort þær tryggi það sem tryggja þarf í þeim efnum. Það eru mjög skiptar skoðanir á því og þeir sem hafa gagnrýnt að verið sé að stofna laxastofninum í hættu hafa ekki treyst á þessar seiðafleytur. Hvernig getum við þá, sem erum ekki fagmenn, metið það svo að þeim sé treystandi? Það sem ég get sagt í þessu máli er að maður verður að velta kostum og göllum við þetta heildarmál fyrir sér og ég mun gera það í sjálfu sér. Það er kannski heldur ekki gott að rífa þetta mál allt upp. Þeir sem eru miklir nýtingarsinnar ætla að fara að rífa marga kosti út úr verndarflokki. Við sem erum frekar þeim megin að vera verndunarsinnar ætlum að fara að rífa út úr nýtingarflokki ákveðna þætti sem við viljum taka þar úr. Ég er svolítið hrædd um að ef við förum að opna allt þetta mál þá köllum við á eitthvað sem við ráðum kannski ekkert við. Við erum ekki bara ein ef við á annað borð opnum þetta mál allt.

Ég vildi gjarnan sjá að það væri í framhaldinu, ef við förum að afgreiða þessa tillögu, sem ég er ekki að segja að verði endirinn á næstu vikum, (Forseti hringir.) að við höfum eitthvað í höndunum um hvað bíður hvað varðar neðri hluta Þjórsár varðandi það að farið verði í enn betri rannsóknir á laxastofninum og hvað yrði um hann ef virkjað yrði þarna.