145. löggjafarþing — 152. fundur,  14. sept. 2016.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

853. mál
[13:16]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Það þarf í sjálfu sér ekki að koma neinum á óvart að þessi háttur sé hafður á. Um þetta hefur áður verið tekist í þinginu. Það er skýr vilji þeirra flokka sem fara með meiri hluta í þinginu að þessi málaflokkur eigi að vera á vettvangi atvinnuveganefndar á Alþingi. Þetta hefur áður reynt á á þessu þingi. Báðir þessir flokkar gerðu líka háværar athugasemdir um að þetta skyldi fært til umhverfisráðuneytis á sínum tíma, þótt menn hafi ekki gert breytingu til baka hvað það varðar. Það er auðvitað í raun mjög sorglegt að upplifa hér enn og aftur hvernig menn byrja á einhverju persónulegu skítkasti í þessu máli en það er svo sem við öllu að búast þegar að þessum málaflokki kemur. Atvinnuveganefnd mun að sjálfsögðu fjalla faglega um þetta mál. Hún mun eins og áður senda málið til umhverfisnefndar til þess að fá álit hennar á því. Við munum reyna að leiða þetta mál út í sátt. Þessi rammaáætlun mun ekki á þeim (Forseti hringir.) stutta tíma sem er eftir af þessu kjörtímabili ná neinni niðurstöðu og fara út öðruvísi en að um það verði víðtæk sátt.