145. löggjafarþing — 153. fundur,  19. sept. 2016.

yfirlýsing forseta um skýrslu fjárlaganefndar.

[16:22]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég get ekki annað en tekið undir allt það sem hv. þm. Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir sagði hér rétt í þessu. Mér finnst ótrúlegt að það sé enn þá einhvern veginn orðræða um að þetta eigi mögulega að fara í einhverja umfjöllun í nefndinni, að það eigi að koma sérstök rannsóknarnefnd að þessari ritgerð sem greinilega, miðað við þau orð sem hér komu fram hjá hv. þm. Guðlaugi Þór … (GÞÞ: Þórðarsyni.) Þórðarsyni, því að þar kemur fram að þetta hafi í raun og veru snúist um einn mann, hv. þm. Steingrím J. Sigfússon. Mér finnst mjög alvarlegt þegar verið er að nota þingið, misnota þingið, á þennan hátt til þess að slá pólitískar keilur og búa til einhverja orðræðu fyrir kosningabaráttuna. Það er ekki í lagi, forseti. Þingið hefur sett niður við þetta. Ég óska eftir að þetta plagg verði dregið úr sögu þingsins.