145. löggjafarþing — 153. fundur,  19. sept. 2016.

fjárveitingar til Verkmenntaskólans á Akureyri.

[16:55]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ákvað að beina þessari fyrirspurn til hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra. Hún virðist stoppa í hans ráðuneyti. Ef hæstv. ráðherra hefur litið á fjölmiðla í dag sér hann að þar kemur fram að Verkmenntaskólinn á Akureyri er í miklum vanda staddur. Ef ég skil rétt eru líklega 12–15 skólar í miklum vanda staddir og áhugavert er að vita hvort þeir eru allir beittir sömu meðferð, þ.e. að greiðslur til þeirra hafi verið stöðvaðar. Ég átti orðastað við hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra um stöðu Verkmenntaskólans á Akureyri í apríl og þá átti að kippa málinu í liðinn. Nú skuldar skólinn í kringum 24 milljónir og hann stóð í þeirri meiningu að búið væri að dreifa skuldinni á næstu tvö til þrjú ár og að hæstv. menntamálaráðherra hefði verið búinn að gera um það samkomulag við skólann. Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra hvort samkomulagið sé ekki raunverulegt og hvort menntamálaráðherra hafi gert eitthvert samkomulag sem ekki stóðst gagnvart fjármála- og efnahagsráðuneytinu.

Verkmenntaskólarnir eru dýrir skólar, þeir eru með matvæladeild og iðnaðardeildir eins og við þekkjum. Nú er ekki hægt að kaupa aðföng. Hreinlega er fyrirliggjandi að það gæti þurft að senda nemendur heim í næstu viku þar sem ekki eru til fjármunir til að borga reikninga, standa við gerða þjónustusamninga og annað slíkt. Það er til fyrir launum, þau koma alltaf úr ríkiskassanum, en það gengur ekki að skólarnir sem telja sig heldur ekki hafa fengið kjarasamningana uppfyllta að öllu leyti — hin margfræga reikniregla hefur margoft verið rædd hér og það virðast gerðir kjarasamningar en ekki greiddir að fullu. Svo bætist þetta ofan á (Forseti hringir.) þannig að ég spyr hæstv. ráðherra: Á hverju strandar?