145. löggjafarþing — 153. fundur,  19. sept. 2016.

fullgilding Parísarsamningsins.

858. mál
[18:22]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir býsna hlý orð, svo ég orði það nú ekki sterkar (Gripið fram í.) til að svara þessari ástarjátningu og fleiru sem þar bjó að baki. Ég hef svo sem ekki á prjónunum að reyna að taka yfir fleiri ráðuneyti. Ég verð þó að fá að segja að ég var á fundi um daginn úti á landi og auglýst var: Kaupfélagið lokað í dag vegna Gunnars Braga. [Hlátur í þingsal.] Ég velti fyrir mér hvort þetta væri svona eins og stormsveipur eða eitthvað sem færi um. En það var nú víst ekki. Það var bara til þess að menn kæmust á fundinn.

En ég meina það sem ég segi hér. Ég held að þetta sé mjög góð leið til að hvetja til þess að við aukum þátt grænna ökutækja í umhverfinu. Við getum líka tekið þetta lengra og velt fyrir okkur hvernig við getum til dæmis hvatt bændur. Nú hafa bændur skrifað undir samkomulag eða yfirlýsingu við atvinnuvegaráðherra og umhverfisráðherra um að stuðla að því að græn orka sé meira notuð í landbúnaði. Við gætum hugsað okkur að hægt væri að styðja þá með einhverjum hætti til þess að taka skrefið, vera á tækjum sem eyða minna eða geta notað grænt eldsneyti, framleitt það sjálfir mögulega. Og svo mætti áfram telja. Við sjáum að kominn er rafmótor í a.m.k. eitt skip hér, hvalaskoðunarskip, sem er algerlega til fyrirmyndar. Síðan vitum við líka að á Íslandi er verið að framleiða grænt eldsneyti, t.d. af fyrirtækinu Íslenskt eldsneyti, suður með sjó, lífdísil, og hægt er að gera miklu meira af slíku. Þar eru frumkvöðlar á ferð og þótt þeir framleiði úr repjuolíu í dag stefna þeir á að framleiða þetta úr þörungum sem er gríðarlega áhugavert fyrir Ísland.

Það er fullt af tækifærum. Við eigum að nota þau. Eitt af þeim er hreinlega að bjóða fólki upp á að fá mun ódýrari ökutæki til landsins en er í dag. Það gerum við með því að fella niður gjöld upp að einhverju marki að sjálfsögðu eða í einhvern tíma þar til við náum ákveðnum markmiðum. Þá finnst mér það engin spurning.