145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

störf þingsins.

[14:15]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Herra forseti. Í 23. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins eru sérstök ákvæði til að tryggja mannréttindi fatlaðra barna. Það er ekki að ástæðulausu. Viðurkennt er að fötluð börn þurfa hvarvetna að þola mikla mismunun. Ísland er engin undantekning frá því. Í greininni segir meðal annars, með leyfi forseta:

„Aðildarríki viðurkenna rétt fatlaðs barns til sérstakrar umönnunar, og skulu þau stuðla að því og sjá um að barni sem á rétt á því, svo og þeim er hafa á hendi umönnun þess, verði eftir því sem föng eru á veitt sú aðstoð sem sótt er um og hentar barninu og aðstæðum foreldra eða annarra sem annast það.

Með tilliti til hinna sérstöku þarfa fatlaðs barns skal aðstoð samkvæmt 2. tölulið þessarar greinar veitt ókeypis þegar unnt er, með hliðsjón af efnahag foreldra eða annarra sem hafa á hendi umönnun þess, og skal hún miðuð við að tryggt sé að fatlaða barnið hafi í raun aðgang að og njóti menntunar, þjálfunar, heilbrigðisþjónustu, endurhæfingar, starfsundirbúnings og möguleika til tómstundaiðju, þannig að stuðlað sé að sem allra mestri félagslegri aðlögun og þroska þess, þar á meðal í menningarlegum og andlegum efnum.“

Ísland fullgilti barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna árið 1993 og hann var tekinn í íslensk lög árið 2013, eins og við vitum. Að undanförnu hefur verið greint frá því í fjölmiðlum að verið sé að skerða frístundaþjónustu við fötluð börn vegna þess að það skorti fé og starfsfólk. Það gerist á sama tíma og ráðherrar og þeir sem fara með völdin á Íslandi segja að hér sé bullandi uppgangur og hagur ríkisins hafi stórbatnað. Eiga fötluð börn og aðstandendur þeirra ekki að fá að njóta þess?

Herra forseti. Hvernig samræmist það skyldum stjórnvalda við fötluð börn samkvæmt barnasáttmálanum, sem eru lög í landinu? Hvernig má það vera að það sé þannig í okkar ríka landi? Því verða ábyrg stjórnvöld að svara. Ég leyfi mér að fullyrða enn og aftur hér í ræðustól að fólkið í landinu vill alls ekki hafa þetta svona. Ef stjórnvöld vilja ekki taka mark á barnasáttmálanum verður fólkið í landinu að gefa þeim skýr fyrirmæli um að gera það. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)


Efnisorð er vísa í ræðuna