145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

störf þingsins.

[14:18]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Í framhaldi af ræðu hv. þm. Birgittu Jónsdóttur vil ég taka fram að lyfjagreiðslunefnd hefur sent frá sér fréttatilkynningu þar sem fram kemur að heilbrigðisráðherra hefur tekið af safnlið ráðuneytisins 100 millj. kr. framlag til að opna fyrir 21 nýju leyfisskyldu lyfi. Þannig hafa flest af forgangslyfjum sem Landspítalinn hefur óskað eftir verið samþykkt og er áætlað að kostnaður á þessu ári við þennan þátt verði 474 millj. kr. og 706 millj. kr. á næsta ári. Auk þess hefur lyfjagreiðslunefnd samþykkt 16 umsóknir einstaklinga um greiðsluþátttöku á S-merktum lyfjum. Það er mikilvægt að halda þessu til haga þegar verið er að fjalla um jafn viðkvæm mál og lyf og að það sé skortur á lyfjum. Flest lyf sem óskað hefur verið eftir að kæmu til landsins á þessi ári hafa komið til landsins.

Virðulegi forseti. Ég ætlaði að gera að aðalumræðuefni á þeim stutta tíma sem ég hef hugsanlegt verkfall sjómanna. Ég ber mikinn kvíðboga fyrir því að sjómenn geti farið í verkfall 10. nóvember nk. og ég vil hvetja sjómenn, ég vil hvetja útgerðarmenn til að ná samkomulagi fyrir þann tíma. Atkvæðagreiðslu fyrir verkfallið lýkur 17. október og það er tími til að ná áttum. Það er ljóst að styrking gengisins og lækkandi gengi pundsins og viðskiptabann Rússa með fisk hefur haft mikil áhrif til lækkunar á afurðaverði, sem kemur beint niður á sjómönnum í tekjum þeirra. Nánast alla þessi öld hafa þeir ekki farið í harða baráttu í kjaramálum sínum. Mér finnst það óhugsandi að 2.600 sjómenn, allur flotinn verði bundinn við bryggju eftir 10. nóvember með allri þeirri hættu sem það hefur í för með sér fyrir fiskmarkaði.


Efnisorð er vísa í ræðuna