145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

fullgilding samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

865. mál
[15:10]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Þetta er langþráð stund að fá sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks til fullgildingar hér á Alþingi og búið að bíða þess í nærfellt áratug að sú stund renni upp. Það er þeim mun meiri ástæða til að þakka hv. utanríkismálanefnd og framsögumanni, hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, fyrir snöfurmannlega afgreiðslu á málinu sem staldraði þar aðeins við á einum fundi, í örfáa daga, og er strax komið hér til lokaafgreiðslu. Sömuleiðis þakka ég hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur fyrir vinnu velferðarnefndar að málinu í tengslum við þingsályktunartillögu Kristjáns L. Möllers.

Ég vil nota þetta tækifæri og færa sérstaklega hæstv. utanríkisráðherra Lilju Dögg Alfreðsdóttur þakkir fyrir að hafa komið með þetta fljótt og vel inn þó að hún hafi stutt staldrað við í ráðherraembætti enn, hún er nú fjarstödd umræðuna vegna funda erlendis, en það munar sannarlega um að hafa loksins fengið málið inn í þingið. Ég verð þó að gera athugasemdir við að utanríkisráðherra skuli ekki hafa látið fylgja með fullgildingu á valfrjálsu bókuninni. Ég þakka hæstv. utanríkismálanefnd fyrir að beina því til Stjórnarráðsins að hefja þegar vinnu að því að valfrjálsa bókunin geti fengið fullgildingu líka því að það var náttúrlega aldrei gengið út frá neinu öðru en að Íslendingar yrðu meðal þeirra þjóða sem fullgiltu sáttmálann allan með viðaukum, en væru ekki í hópi þeirra skussa, ef ég má segja svo, sem gera það ekki.

Það er rétt sem fram kom hjá hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur að enn þarf að gera allnokkrar lagabreytingar til að fullgildingin sé komin fram í raun og veru. Ég held að þar séu þó mest hrópandi tilskipanir Evrópusambandsins um bann við mismunun á vinnumarkaði sem settar voru árið 2000. Virðulegur forseti, ég endurtek: árið 2000. Evrópusambandið bannaði mismunun á evrópskum vinnumarkaði árið 2000. Við Íslendingar erum aðilar að evrópskum vinnumarkaði. Núna er komið árið 2016 og enn hefur það ekki verið innleitt í íslenskan rétt. Í 16 ár hefur það ekki verið innleitt í íslenskan rétt. Sjálfur kom ég að þessu máli að beiðni þáverandi félagsmálaráðherra árið 2007 til að greiða úr deilum, ég gerði það með hv. þm. Birgi Ármannssyni. Við náðum samhljóða samkomulagi með öllum aðilum vinnumarkaðarins um það hvernig leiða ætti þessar tilskipanir í íslensk lög. Sú niðurstaða hefur legið í félagsmálaráðuneytinu í átta ár (Gripið fram í: Segðu af hverju.) og hún hefur verið á málaskrá ríkisstjórnar á hverju einasta hausti allan tímann síðan. Ég heyri að hæstv. ráðherra kallar „segðu af hverju“. Ég held að sé best að ráðherrann sjálfur geri grein fyrir því hvers vegna það frumvarp hefur aldrei komið fram, hvers vegna það hefur ekki fengið afgreiðslu í þinginu. Það er okkur öllum til vansa að í 16 ár hafi verið bannað að mismuna á evrópskum vinnumarkaði nema á Íslandi. Við fáum væntanlega svörin við því síðar í umræðunni. Ég treysti því að ráðherrann kveðji sér hljóðs og skýri það vegna þess að þetta er náttúrlega hvað augljósasti ágallinn á íslenskri löggjöf hvað varðar réttindi fatlaðs fólks eins og staðan er í dag.

Árið 2006 var ég af sendur þáverandi félagsmálaráðherra Páli Péturssyni og þáverandi utanríkisráðherra Valgerði Sverrisdóttur til samningaviðræðnanna um sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks í New York og kynntist því nokkuð með hvaða hætti sáttmálanum var lent. Hluti af því að ná samkomulagi allra þeirra ólíku þjóða sem starfa saman á vettvangi Sameinuðu þjóðanna var hin valfrjálsa bókun þar sem eru annars vegar kvörtunarleiðir fyrir einstaklingana og hins vegar réttur eftirlitsnefndarinnar til að rannsaka hluti í þeim löndum sem fullgilda valfrjálsu bókunina.

Ástæðan fyrir því að þetta varð að valfrjálsri bókun var að þar voru ríku löndin, þróuðu löndin, velferðarsamfélögin, að búa til leið fyrir fátækustu löndin í heiminum þar sem málaflokkur fatlaðra er mjög vanþróaður, til þess að þau gætu fullgilt sáttmálann en fengju ekki um leið og þau hefðu gert það yfir sig aragrúa af kærumálum og rannsóknarnefndir til að taka stofnanirnar hjá þeim í gegn. Þess vegna var valfrjálsa bókunin hugsuð, fyrir lönd eins og Kína sem hikuðu við það að inn kæmu vestrænar rannsóknarnefndir til þess að fara í gegnum munaðarleysingaheimilin þar eða aðbúnað barna með geðheilbrigðisvanda eða önnur slík stór samfélagsmál, en hún var aldrei hugsuð fyrir velferðarríki Vesturlanda, þó að eitt og eitt ríki hafi kosið að fullgilda hana ekki. Það var alltaf út frá því gengið að norræn velferðarríki teldu mikilvægt að okkar borgarar gætu kvartað til nefndar Sameinuðu þjóðanna í þessum efnum, rétt eins og menn gerðu hér út af veiðum í hafinu við Ísland, eins og frægt er, þegar menn leituðu til mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Auðvitað viljum við að íslenskir borgarar geti leitað með kvartanir til alþjóðlegra stofnana ef þeir fá ekki réttindi sín fram hér innan lands.

Auðvitað óttumst við ekki að alþjóðleg nefnd komi hér og skoði aðbúnað fatlaðra á Íslandi með sama hætti og að við fáum hingað eftirlitsnefndir sem kanna ástand mála í fangelsismálum eða í málefnum barna eða öðrum slíkum málum.

Ég held að þetta hljóti bara að vera einhver frestun á því að fullgilda valfrjálsu bókunina. Ég treysti því og trúi að það muni fylgja strax í kjölfarið því að það þekkir fatlað fólk því miður af eigin raun að falleg orð á blaði eru til lítils ef ekki er hægt að leita neitt, ef það er ekki uppfyllt. Kvörtunarleiðin er auðvitað hluti af því.

Að þessum minni háttar aðfinnslum sögðum ítreka ég að ég fagna því að ráðherrann skuli hafa komið með þetta svo fljótt inn eftir að hann tók við embætti og að utanríkismálanefnd hafi afgreitt málið svo rösklega að þessi stund sé loksins að renna upp hér í þinginu að sáttmálinn sé fullgiltur og hlakka til að heyra útskýringar félagsmálaráðherra á stöðu vinnumarkaðarins.