145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

fullgilding samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

865. mál
[16:08]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að mér hefur sjaldan ef nokkurn tíma liðið jafn klaufalega að koma í ræðustól með spurningu því að ég er svo forviða sjálfur. En ef ástæðan er sú, sem við getum auðvitað ekki gefið okkur hér nema með frekari gögnum, vísbendingum, að embættismannakerfið óttist málsóknir og í stuttu máli vesen, eru það þá ekki bara frekari rök fyrir að staðfesta þennan valkvæða viðauka? Þýðir það ekki bara að það er meira að en við áttum okkur á? Ég mundi halda það.

Ef þetta eru rökin þættu mér það vera rök fyrir því að staðfesta viðaukann, en ekki rök gegn því. Mér þætti skárra, segi ég í ákveðnu ábyrgðarleysi, að það væri bara engin þörf á þessu. Það mundi engu breyta. Hlutirnir væru í svo góðu lagi. Ég efast reyndar um að það sé tilfellið, en það væri skömminni skárra en hitt að þetta mundi færa okkur svo mikið vesen vegna þess að það væri svo mikið tilefni til að nýta hina valkvæðu viðbótarbókun, þ.e. ef sögusögnin er sönn. En það hættir svo sem seint að koma manni á óvart það sem maður heyrir úr kerfinu. Það er ýmislegt að í réttindamálum á Íslandi, ekki bara í þessum málaflokki heldur víðar. En ég spyr hv. þingmann: Ef það er tilfellið að embættismenn eða einhverjir aðilar innan kerfisins óttist áhrif þessarar valkvæðu viðbótarbókunar, eru það þá ekki rök fyrir því að samþykkja hana?