145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

fullgilding samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

865. mál
[18:03]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Það er gleðidagur á Alþingi í dag þar sem við erum að samþykkja að fullgilda samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Það fer vel á því eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson nefndi að í dag, 20. september, er stofndagur Átaks, félags fólks með þroskahömlun, en það félag var stofnað 1993.

Ég vil eins og aðrir þakka hv. utanríkismálanefnd, þá alveg sérstaklega formanni nefndarinnar, hv. þm. Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, og hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, sem er framsögumaður málsins, fyrir að hafa vaktað málið í þingsal, tekið þátt í allri þessari umræðu og leitt til þess að við erum hér saman komin öll, fjöldi þingmanna, til að taka þátt í atkvæðagreiðslu og samþykkja þennan samning.

Sömuleiðis vil ég þakka hv. þm. Páli Val Björnssyni sem flutti breytingartillögu um valkvæða viðaukann og alveg sérstaklega fyrir að standa upp og gera það að verkum að fulltrúar allra þingflokka flytja þá tillögu þó að hún taki ekki gildi fyrr en 1. janúar 2017.

Virðulegi forseti. (Forseti hringir.) Það væri betra að við á Alþingi beittum okkur oftar fyrir að leita lausnar eins og hér hefur verið gert. Á næsta þingi bíður það svo Alþingis (Forseti hringir.) að fylgja eftir þessari ákvörðun með ýmsum lagabreytingum. (Forseti hringir.) Ég verð ekki á því þingi en ég tek þátt í því að vera í þeim þrýstihópi sem verður um að koma þeim á. (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Á heimasíðu Átaks stendur með stórum stöfum einhvers konar einkunnarorð: Virða ber manngildi, grunnþarfir og rétt allra manna. Með þessari samþykkt stígum við stórt skref í þá átt. (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Ég biðst afsökunar á að hafa farið aðeins fram yfir tímann. [Hlátur í þingsal.]

(Forseti (SJS): Forseti barði mjög mildilega í bjölluna.)