145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

fullgilding samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

865. mál
[18:05]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Það er mér gríðarlegt fagnaðarefni að við séum að ganga til atkvæða um fullgildingu á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þetta er mál sem ég veit ekki hvað ég hef komið oft inn á í ræðum mínum síðan ég tók sæti á Alþingi. Þetta skiptir alveg gríðarlega miklu máli, ekki bara fyrir fatlað fólk heldur alla í landinu.

Um leið og ég lýsi því yfir að ég styð auðvitað breytingartillöguna við þingsályktunartillögu sem ég er einn af meðflutningsmönnum að langar mig við þetta tækifæri að þakka öllum þeim hv. þingmönnum sem hafa tekið þátt í umræðunum og hafa lagt sitt af mörkum til að við getum afgreitt bæði fullgildinguna og komið því við að hinn valkvæði viðauki samningsins verði einnig samþykktur í svona góðri sátt. (Forseti hringir.) Þetta skiptir alveg rosalega miklu máli svo ég óska okkur öllum, sem og samfélaginu öllu, til hamingju með þennan áfanga.