145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

meðferð einkamála.

657. mál
[18:11]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég dreg breytingartillögu mína til baka en ég ætla aðeins að segja frá innihaldi hennar því að ég ber vonir til þess að nefndin taki vel og jákvætt í þessar tillögur og óska eftir því að þær fari til nefndar á milli umræðna. Þær varða m.a. fjárhag þeirra sem sækja um gjafsókn og þá sem sækja mál á sviði umhverfismála og óska eftir því að fá gjafsókn.

Þetta harmónerar við þær ábendingar sem Öryrkjabandalagið hefur komið með, sem Lögmannafélag Íslands hefur komið með og Landvernd og ég mun leggja fram aðra breytingartillögu, og geri ráð fyrir því að minnihlutafólkið verði á henni og jafnvel meiri hlutinn, ég vonast til þess að allir verði með á því, um að hækka viðmið vegna gjafsóknar. Viðmiðið í dag er undir lágmarkslaunum, þ.e. 2 millj. kr. á ári, þannig að fólk er nánast ekki með neinar tekjur ef það á að fá gjafsókn og það gengur ekki upp. Það eru ábendingar sem hafa komið frá öllum þessum umsagnaraðilum og ég vonast til að þessu náum við fram milli umræðna.