145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

kjararáð.

871. mál
[18:53]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna. Ég sit í efnahags- og viðskiptanefnd og mér finnst rétt að spyrja nokkurra spurninga ef málið lendir í þeirri nefnd. Það er kannski þrennt sem mig langar að inna hæstv. ráðherra eftir. Fram kom í máli hans og í greinargerð með frumvarpinu að þetta launakerfi sé byggt á norskri fyrirmynd, sem þarna er verið að leggja til, en um leið kom líka fram að Norðmenn væru þó búnir að breyta sínu kerfi frá og með árinu 2015, þ.e. þessu „Statens lederlønnssystem“, eins og það er kallað. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort þær breytingar hafi ekki komið til athugunar við samningu þessa frumvarps og hvort við gætum verið að taka áhættuna af því að við séum að innleiða kerfi sem er talið úrelt í Noregi, eða hvort þær breytingar séu minni háttar.

Mig langar einnig að spyrja hæstv. ráðherra af því að trúlega hefur ráðuneytið fengið viðbrögð frá þeim hópum sem heyra undir kjararáð. Það verður þá væntanlega þeirrar þingnefndar sem fer með málið að fara yfir viðbrögð þessara hópa. Getur hæstv. ráðherra eitthvað upplýst okkur um hvort þau viðbrögð voru jákvæð eða neikvæð? Þá er ég sérstaklega að vitna til þeirra hópa sem væntanlega fara í annað fyrirkomulag. Ef hæstv. ráðherra gæti aðeins upplýst okkur um það.

Síðan af því að hæstv. ráðherra nefndi eðlilega málefni sérstaklega forstjóra opinberra hlutafélaga og hvernig tekið væri fram í eigandastefnu þessara hlutafélaga, það ætti ekki að vera leiðandi launaþróun hjá þessum aðilum. Ég tek það sem svo og bið hæstv. ráðherra að skýra það að hann hafi ákveðnar áhyggjur af því að þetta muni valda launaskriði hjá þeim forstjórum í ljósi þess að hann sá ástæðu til að ítreka það hér að í eigandastefnunni væri ekki ætlast til þess. Gæti þessi breyting orðið til þess að við sæjum launaskrið hjá þessum afmarkaða hópi?