145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

ákvarðanir EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

681. mál
[20:57]
Horfa

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn. Þetta lýtur að evrópskum reglum um fjármálaeftirlit.

Eins og komið hefur fram er þetta nefndarálit frá meiri hluta utanríkismálanefndar, en tvö sérálit koma frá minni hlutanum í nefndinni.

Þingheimur þekkir þetta mál ágætlega. Nefndin hefur fjallað um málið að þessu sinni og í þessari atrennu og fengið á sinn fund Bryndísi Kjartansdóttur, Kristján Andra Stefánsson, Jóhönnu Bryndísi Bjarnadóttur og Unni Orradóttur Ramette frá utanríkisráðuneytinu, Guðrúnu Þorleifsdóttur, Evu H. Baldursdóttur, Kjartan Gunnarsson og Ernu Hjaltested frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Rúnar Örn Olsen og Pál Friðriksson frá Fjármálaeftirlitinu og Skúla Magnússon, héraðsdómara og dósent við lagadeild Háskóla Íslands. Auk þess leitaði nefndin, vegna þess að þarna eru auðvitað álitamál er tengjast stjórnskipulegum málum, eftir umsögn stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og fylgir umsögnin þessu nefndaráliti. Í raun og veru gerir nefndin það álit að sínu og það fylgir sem fylgiskjal. Þá fékk nefndin einnig minnisblað frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu.

Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd níu fyrirhugaðar ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðaukanum við EES-samninginn frá 2. maí 1992 um að fella inn í samninginn 31 gerð og samning um breytingu á samningi milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls um hlutverk og valdheimildir Eftirlitsstofnunar EFTA á sviði fjármálaeftirlits.

Það sem umræddar gerðir fela í sér er að búið er til samevrópskt fjármálaeftirlitskerfi. Kerfið samanstendur af þremur eftirlitsstofnunum, evrópsku kerfisáhætturáði og eftirlitsyfirvöldum aðildarríkja ESB. Það liggur í hlutarins eðli og felst í þessum orðum og því sem er kjarninn í þessu máli hversu stórt það er og skýrir kannski það hversu lengi þingið er búið að vera vinna með málið og hve snúið það hefur verið. Stofnanirnar þrjár sem kveðið er á um í gerðunum tóku til starfa 2011 og hafa þær ákveðnar valdheimildir sem þær geta beitt við sérstakar aðstæður og þegar talið er að fjármálaeftirlit aðildarríkja bregðist. Þessar valdheimildir fela m.a. í sér heimildir til að taka bindandi ákvarðanir gagnvart eftirlitsstjórnvöldum í neyðarástandi, til að taka bindandi ákvarðanir gagnvart fyrirtækjum á fjármálamarkaði í neyðarástandi, til að banna tímabundið eða takmarka ákveðna fjármálastarfsemi og til að taka bindandi ákvarðanir í ágreiningsmálum eftirlitsstjórnvalda.

Þegar gerðirnar komu fyrst til umfjöllunar utanríkismálanefndar, í samræmi við 2. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála, í mars 2013 höfðu þá þegar verið gerðar umfangsmiklar og alvarlegar athugasemdir við það valdaframsal sem talið var að fælist í málinu eins og það þá leit út og væri falið í að fela þessum evrópsku eftirlitsstofnunum, sem Ísland væri ekki aðili að, vald til að taka bindandi ákvarðanir. Á fund nefndarinnar þá og í meðförum þingsins kom t.d. fram álitsgerð frá Björgu Thorarensen og Stefáni Má Stefánssyni sem var birt í apríl 2012, en þau komust að þeirri niðurstöðu að innleiðing gerðanna væri háð annmörkum með tilliti til stjórnarskrár og með innleiðingu þeirra yrði stigið skrefi lengra að því er varðar framsal valds en áður hefur verið talið rúmast innan 2. gr. stjórnarskrárinnar. Það var þó jafnframt álit þeirra að unnt væri að vinna að lausn á málinu og vinna betur með það að því tilskildu að tveggja stoða kerfi EES-samningsins yrði notað gagnvart Íslandi í þessu máli.

Þá tók við talsvert ferli af viðræðum, samtölum og samningaviðræðum um hvernig væri hægt að vinna með málið. Samningar um sérstaka lausn fyrir EES/EFTA-ríkin náðust loks við Evrópusambandið og hefur sá samningur síðan verið staðfestur af öllum samningsaðilum nema Íslandi. Í samningnum felst að í stað þess að evrópsku eftirlitsstofnanirnar hafi heimildir til að taka bindandi ákvarðanir gagnvart Íslandi eru slíkar ákvarðanir gagnvart stjórnvöldum EFTA-ríkjanna innan EES og fyrirtækjum sem þar starfa teknar af Eftirlitsstofnun EFTA, ESA. Þetta er sú breyting sem var talin eina leiðin til að finna lausn á því viðfangsefni sem ég nefndi áðan varðandi stjórnarskrána. Eftirlitsstofnanir ESB eru þó bærar til að gefa yfirlýsingar sem ekki eru bindandi, t.d. með tilmælum og í sáttastörfum, gagnvart stjórnvöldum og fyrirtækjum í EFTA-ríkjunum innan EES. Í öllum tilvikum er þó gert ráð fyrir samráði á milli eftirlitsstofnana ESB og Eftirlitsstofnunar EFTA.

Í greinargerð með tillögunni kemur fram að með þessu megi segja að EFTA-ríkin innan EES hafi „fyrir sitt leyti viðurkennt mikilvægi hins nýja eftirlitskerfis ESB fyrir innri markaðinn og þar með einsleitnismarkmiðs EES-samningsins. Hins vegar hafi Evrópusambandið og ríki þess viðurkennt að við aðlögun þessa kerfis að EES-samningnum yrði að taka tillit til grunnreglna samningsins.“

Ég nefndi áðan Skúla Magnússon, héraðsdómara og dósent við lagadeild Háskóla Íslands, en álitsgerð hans fylgir. Hann kemst að þeirri niðurstöðu að framsal valdheimilda samkvæmt fyrirliggjandi tillögum um aðlögun reglugerða Evrópusambandsins um fjármálaeftirlit að EES-samningnum mundi í heild sinni, með því að breyta þessu svona og stilla því upp í tveggja stoða kerfi, samræmast íslenskum stjórnarskipunarlögum.

Sökum eðlis málsins og þeirra stjórnskipulegu álitamála sem hafa verið uppi var óskað umsagnar stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um þennan þátt málsins. Ég vil nota þetta tækifæri og þakka hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fyrir störf sín. Það kemur fram í umsögn þeirra, sem er fylgiskjal með þessu áliti, hversu mikla vinnu nefndarmenn þar lögðu í verkefnið, hversu marga talað var við og hversu vel hugað er þar að öllum þáttum sem við höfum verið að velta fyrir okkur. Ég vil þakka fyrir það. Þetta tók að vísu dálítinn tíma, en við því var að búast. Ég held að málið sé miklu betur nestað og unnið eftir að við fengum þá umsögn. En eins og ég sagði áðan fylgir umsögnin áliti þessu, en þar kemur m.a. fram, og því skal til haga haldið, að skiptar skoðanir voru í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd um það hvort framsalið rúmist innan heimilda 2. gr. stjórnarskrárinnar. Það voru sem sagt skiptar skoðanir meðal nefndarmanna um það hversu mikið væri hér verið að teygja á því að við skyldum vinna innan stjórnarskrárinnar og hversu langt væri gengið.

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd rannsakaði sérstaklega heimildir ríkisins til að bregðast við neyðarástandi ef þessar gerðir yrðu innleiddar í íslenskan rétt. Í umsögninni kemur það mjög skýrt fram og er reifað hvort Ísland gæti t.d. gripið til sömu ráðstafana og gripið var til hér haustið 2008 þegar skapaðist ákveðið neyðarástand í samfélagi okkar og eðlilega vildi nefndin fara vel yfir það hvort Ísland gæti brugðist við á fjármálamarkaði sínum eins og best væri talið. Þetta var sérstaklega rannsakað af hálfu nefndarinnar. Í umsögninni kemur fram að nefndin telji að lögfræðileg umgjörð málsins sé með þeim hætti að hún eigi ekki að takmarka svigrúm löggjafans eða dómstóla til að grípa til allra þeirra aðgerða sem rúmast innan stjórnarskrár og teljast nauðsynlegar til að verja efnahagslegt sjálfstæði landsins á hættutímum. Þetta er mjög mikilvægur punktur og mikilvæg umræða sem felst þarna í umsögn hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Telur stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd brýnt að enginn vafi leiki á um þetta og að engin leið verði til að túlka upptöku gerðanna í innlendan rétt sem einhvers konar þrengingu á svigrúmi löggjafans eða innlendra dómstóla að þessu leyti. Meiri hlutinn í hv. utanríkismálanefnd tekur undir þessi sjónarmið og áskilnað stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um að sérstök yfirlýsing verði gefin í sameiginlegu EES-nefndinni við upptöku gerðanna, sem útskýra þann skilning Íslands að innleiðing gerðanna hafi ekki áhrif á rétt EES-ríkjanna til að taka grundvallarákvarðanir um efnahagslegar aðgerðir til að bregðast við kerfisvanda eins og við bankahrunið árið 2008.

Þetta er stór þáttur í málinu og kemur fram aftast í umsögn hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þar sem er lögð fram tillaga að orðalagi sérstakrar yfirlýsingar íslenskra stjórnvalda fyrir sameiginlegu EES-nefndinni. Við teljum í meiri hluta hv. utanríkismálanefndar að mikilvægt sé að þessi yfirlýsing fylgi og fögnum því að hún hafi verið sett fram með þeim hætti sem hér er gert.

Líkt og fram kemur í títtnefndri umsögn stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hefur þegar verið haft samráð við utanríkisráðuneytið og fjármála- og efnahagsráðuneytið um útfærslu slíks texta og er samkomulag um endanlegt orðalag. Að auki er rétt að upplýsa þingheim um það að ekki er talið eftir yfirferð í hv. utanríkismálanefnd að slíkri yfirlýsingu verði mótmælt af hálfu annarra samningsaðila. Við treystum því að svo verði ekki.

Virðulegi forseti. Að lokum tekur meiri hlutinn undir þau sjónarmið sem fram koma í umsögn stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, samanber fylgiskjölin sem ég hef nefnt áður, og leggjum til að málið verði samþykkt óbreytt.

Hv. þingmenn Karl Garðarsson, Óttarr Proppé og Silja Dögg Gunnarsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifa undir álitið samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

Undir þetta rita auk þeirra sem hér stendur Karl Garðarsson, Vilhjálmur Bjarnason, Frosti Sigurjónsson, Elín Hirst, Óttarr Proppé og Silja Dögg Gunnarsdóttir, hv. þingmenn og nefndarmenn í hv. utanríkismálanefnd.