145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

ákvarðanir EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

681. mál
[21:31]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta utanrmn. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Um þau fjögur ákvæði stjórnarskrárnefndar var fjallað í áfangaskýrslunni sem ég vitnað til áðan. Þar á meðal var ákvæði um framsal valdheimilda á afmörkuðu sviði í þágu alþjóðasamvinnu. Um það var tekin töluverð umræða hvort slíkt ákvæði ætti svo að fela í sér annars konar framsal sem væri ótakmörkuð heimild til framsals valdheimilda á mörgum sviðum, sem mundi t.d. fela það í sér að stjórnarskráin heimilaði það að ganga í Evrópusambandið. Það var niðurstaða á einhverjum tímapunkti að ekki væri rétt að stíga það skref, til þess þyrfti umræðu í samfélaginu hvort yfir höfuð væri áhugi á því að ganga í Evrópusambandið og taka þá pólitísku umræðu. En hins vegar væri það eðlilegt að horfa til framsalsákvæðis á afmörkuðu sviði í þágu alþjóðasamvinnu í ætt við þá sem við værum þegar aðilar að.

Hvað gerðist? spyr hv. þingmaður. Framsóknarflokkurinn hélt landsfund og samþykkti þar að leggjast alfarið gegn öllum framsalsákvæðum í stjórnarskrá. Ég var ekki á þeim landsfundi þannig að ég veit svo sem ekki hverjar röksemdirnar fyrir því voru.

Ég vil bara segja að mér er mjög annt um fullveldi íslensku þjóðarinnar. Einmitt þess vegna lýsi ég áhyggjum mínum af þessu máli eins og mörgum öðrum sem við höfum rætt hér í þingsölum. Mér finnst mikilvægt að við séum með það algjörlega á hreinu fremur en að hér þurfi ávallt að leita til margra sérfræðinga um það hvort við séum komin út fyrir gráa svæðið þegar kemur að framsali valdheimilda, fyrir utan þau rök sem færð hafa verið fram og eru stundum færð fram og stundum ekki að allt safnist þetta saman. Ég veit að hv. þm. Össur Skarphéðinsson mun fara yfir það þegar hann fer yfir nefndarálit sitt. Ég tel ekki (Forseti hringir.) að það skaði fullveldið að hafa slíkt skýrt og afmarkað ákvæði. Þvert á móti.