145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

ákvarðanir EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

681. mál
[22:04]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel a.m.k. að þegar við samþykkjum mál af þessu tagi þar sem ljóst er að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd telur þann eina kost í stöðunni að búa til sérstakan neyðarhemil og fær framkvæmdarvaldið til að fallast á það, verði það að liggja ljóst fyrir af hálfu framkvæmdarvaldsins að það hafi skoðað hvort sá neyðarhemill virki. Mér finnst mjög erfitt að enda þessa umræðu án þess að hæstv. utanríkisráðherra, eða eftir atvikum staðgengill hennar, gefi yfirlýsingu um að utanríkisráðuneytið hafi sinnt hlutverki sínu og hafi gengið úr skugga um, eins og er jafnan háttur þegar menn gera samninga af þessu tagi, að þetta muni ekki reisa efnislegan ágreining. Ég tel að það sé eiginlega svarta lágmark til þess að menn geti lokið svona umræðu án þess að fyrirverða sig fyrir það taka svona mál. Menn verða að fá yfirlýsingu frá þeim handhafa framkvæmdarvaldsins sem fer með utanríkismál.

Sjálfur er ég kominn á þá skoðun að þetta mál að neyðarhemlinum óvirkum, og við þurfum yfirlýsingu um hann, gangi of langt. Það væri hægt að rökstyðja með rökum sem hugsanlega héldu að ef sá hemill héldi þá gengi þetta mál. Ef við förum hins vegar þá leið sem við eigum að gera sem stjórnskipunarfræðingur leggja ríkt á við okkur að eigi að vera vinnunálgunin, og skoðum framsalið sem verið hefur í þessum tólf, fjórtán málum sem ýmist eru frá eða liggja fyrir, tel ég að samanlagt séum við komin yfir þau mörk sem stjórnarskráin þolir. Ég tel (Forseti hringir.) að það sé mjög mikilvægt að við vindum bráðan bug að því með því að breyta henni, með hvaða hætti og hvenær sem það verður gert.