145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

ákvarðanir EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

681. mál
[22:52]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það eru nokkur atriði í sambandi við þetta mál sem ég ætla að koma inn á áður en þessari umræðu lýkur. Nú er það svo að ég skrifa undir umsögn stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem skilað var til utanríkismálanefndar í meðförum málsins og hef nokkuð komið að því á mismunandi stigum, m.a. meðan ég átti sæti í utanríkismálanefnd. Meðan málið var á undirbúningsstigi kom það alloft til kynningar og umræðu þar og rétt að geta þess, eins og fram hefur komið í máli annarra ræðumanna, að í sjálfu sér er regluverkið, efnisreglur þess og markmið, sem hér er verið að innleiða í meginatriðum jákvætt og á að þjóna þeim tilgangi að draga úr hættu á áföllum á fjármálamarkaði. Að sama skapi er auðvitað mikilvægt að Ísland taki þátt í þeirri þróun þannig að fjármálafyrirtæki hér á landi geti tengst þeim viðskiptum sem eiga sér stað á evrópska efnahagssvæðinu á sem fjölbreyttastan hátt og er m.a. vikið að því í umsögn stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar með ákveðnum hætti.

Það sem hins vegar hefur auðvitað þvælst fyrir mönnum frá upphafi er hvort þær ákvarðanir sem verið er að taka með þessum hætti séu samrýmanlegar stjórnarskrá. Það er auðvitað stóra viðfangsefnið, stóra vandamálið í þessu sambandi. Óhætt er að segja að þegar árið 2012 var mönnum ljóst að það módel sem þá var verið að kynna fyrir okkur var með þeim hætti að það var ekki með nokkrum hætti samrýmanlegt stjórnskipuninni þegar gert var ráð fyrir framsali valds til stofnana Evrópusambandsins. Vinnan í framhaldinu fólst að sjálfsögðu að miklu leyti í því, bæði af hálfu þingsins og þá ekki síður og frá degi til dags þeirra ráðuneyta sem með þetta mál hafa farið, utanríkisráðuneytis og fjármálaráðuneytis, að koma málinu í þann farveg að það væri ásættanlegt fyrir okkur og eftir atvikum önnur EFTA-lönd innan EES. Sambærileg vandamál blöstu við Norðmönnum. Við áttum í meginatriðum samleið með þeim í þeirri nálgun að lausnin hlyti með einhverjum hætti að fela í sér hina svokölluðu tveggja stoða lausn, þ.e. að valdheimildir flyttust ekki til stofnana ESB heldur til stofnana á vegum EFTA sem við ættum aðild að. Sú niðurstaða lá í meginatriðum fyrir haustið 2014. Ég minnist þess að í utanríkismálanefnd töldu menn að með því væri mjög mikilvægum áfanga náð.

Þegar málið kemur síðan til meðferðar í þinginu fyrr á þessu ári er þetta sá þáttur sem menn vilja rýna í. Eins og endurspeglast í umsögn stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar var niðurstaðan í þessu engan veginn sjálfgefin. Menn töldu að það væri raunveruleg ástæða til að spyrja sig hvort lausnin, jafnvel þótt hún væri byggð á tveggja stoða lausninni, væri samrýmanleg stjórnarskránni. Rökin fyrir því eru þau að menn sáu að í þessu tilviki, þessum pakka mismunandi reglugerða og tilskipana, væru þannig dæmi um framsal á valdheimildum að það reyndi meira á þanþolið en í mörgum öðrum tilvikum sem við höfum þurft að takast á við. Það er ekkert verið að fela það í umsögn stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að þetta var raunverulegur vafi sem menn glímdu við. Eins og kemur fram í umsögninni voru skiptar skoðanir innan nefndarinnar hvort svo væri, hvort við gætum fallist á þessa niðurstöðu á grundvelli þeirrar venjuhelguðu reglu sem fræðimenn hafa skrifað um á undanförnum árum og vísað til um heimild til framsals á takmörkuðum sviðum í takmörkuðum mæli. Ég var í hópi þeirra nefndarmanna sem töldu eftir vandlega yfirlegu og skoðun á málinu að þarna reyndi vissulega á þanþolið en við værum þó innan þeirra marka sem okkur væru heimil. Aðrir nefndarmenn voru annarrar skoðunar eins og hefur svo sem komið fram í umræðum.

Ég held að þegar málið er greint sjái menn að skilyrðin sem miðað hefur verið við þegar menn velta því fyrir sér hvort framsal sé heimilt falla ágætlega að þeim einstöku dæmum um framsal sem er að finna í þessum gerðum. Þarna er um að ræða framsal sem er gert ráð fyrir að sé ákveðið með lögum. Það er afturkræft. Það er á afmörkuðum sviðum. Þetta er ekki almennt, opið heildsöluframsal á valdi til tiltekinna stofnana heldur er tilgreint í afmörkuðum og ákveðnum tilvikum hvenær það er fyrir hendi og hvenær ekki. Ég held að ef þessir mælikvarðar eru lagðir á þær ákvarðanir sem þarna heyra undir komumst við að þeirri niðurstöðu að þetta samræmist því sem við höfum áður gert í sambærilegum málum. (ÖS: Það er ekkert sambærilegt mál.) Hér er því haldið fram að það séu ekki sambærileg mál. Þau eru sambærileg að því leyti að við höfum lagt þessar mælistikur á framsal heimilda í öðrum tilvikum með sama hætti og við gerum í þessu máli og m.a. er fjallað um í ítarlegu máli í áliti Skúla Magnússonar héraðsdómara sem fylgir með málinu. Jafnvel þótt andlag þessara gerða sé meira að vöxtum og það séu allmörg tilvik sem getur reynt á í þessum stóra pakka getum við komist að þeirri niðurstöðu, og gerum það í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, flestir, að þarna sé um að ræða framsal sem sé heimilt með sama hætti og við höfum áður tekið ákvarðanir um. Ef við notum einfaldlega sömu mælikvarða og við höfum áður gert í sambærilegum tilvikum komumst við að sömu niðurstöðu.

Ég held að efinn sem vissulega hefur leitað á menn í þessu sambandi verði áfram til staðar einfaldlega vegna þess að spurningum eins og hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson varpaði hér fram áðan í andsvari verður kannski aldrei svarað fyrir víst nema niðurstaða dómstóla liggi fyrir. Við höfum tekið ákvarðanir af sama tagi áður. Þeim hefur ekki verið hnekkt fyrir dómstólum. Ég held að við séum réttum megin við línuna en við erum vissulega komin býsna nálægt henni. Við erum ekki í þeirri stöðu að geta tekið svona mál og afgreitt án þess að þurfa að fara í gegnum þá umræðu, fara í gegnum þá rannsókn eða skoðun á málum, við erum ekki í þeirri stöðu að við getum samþykkt þetta fyrirvaralaust. Við þurfum að brjóta heilann um þetta, meta hvert tilvik fyrir sig, þurfum að skoða hvort þær ákvarðanir sem við erum að taka á þessi sviði standist þá mælikvarða sem við höfum sett okkur í þessu sambandi.

Þetta vildi ég taka fram vegna þess að margir aðrir sem hér hafa talað við þessa umræðu hafa komist að annarri niðurstöðu. Ég segi fyrir mitt leyti að ég skil afstöðu þeirra upp að vissu marki. Ég held hins vegar að menn séu í sumum tilvikum komnir út á dálítið hálan ís þegar menn segja, eins og hv. síðasti ræðumaður, að ef við samþykkjum þetta svona, teljum að þetta samrýmist 2. gr. stjórnarskrárinnar, getum við alveg eins gengið í ESB án þess að breyta stjórnarskránni. Þá held ég að menn séu nú farnir að fara býsna frjálslega með hlutina. Þetta er auðvitað ekki neitt í líkingu við aðild að Evrópusambandinu. Þetta er á miklu takmarkaðra sviði, miklu afmarkaðra og skilgreindara framsal sem um er að ræða en á við ef við göngum inn í Evrópusambandið með öllu því sem því fylgir.

Þetta vildi ég taka fram við þessa umræðu. Ég vísa annars í álit stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og álit utanríkismálanefndar og styð þá niðurstöðu sem þar kemur fram.