145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

ákvarðanir EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

681. mál
[23:15]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Ég er viss um að hv. þm. Birgir Ármannsson tekur öllum mönnum í þessum sal fram um skilgreiningar ef hann kemst að þeirri niðurstöðu eftir að hafa analýserað þessa hluti að það sé afmarkað svið sem er undir þegar tveir háskólaprófessorar segja að það sé hvers kyns fjármálastarfsemi. Er það afmarkað svið? Nei, herra trúr. Ég verð að segja það að nú brestur mig eiginlega flugþol til þess að geta fylgt honum eftir þegar hann skautar svona með himinskautum. Ég verð að segja það með fullri virðingu fyrir þessum ágæta þingmanni.

Það breytir ekki hinu að hér er um að ræða það sem Norðmenn telja meiri háttar framsal, þeir beita framsalsákvæðinu sem þeir settu beinlínis inn í stjórnarskrána af því að þeir töldu að þeir væru að ganga inn í Evrópusambandið, þeir voru að undirbúa það. Ég spyr hv. þingmann eins og ég hef kannski spurt hann hér í kvöld: Er hann ekki sleginn ugg yfir þessu? Norðmenn kalla þetta meiri háttar framsal, en hann drekkur (Forseti hringir.) þetta bara eins og hvert annað vatn úr Gvendarbrunnum.