145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

vegaframkvæmdir.

[10:53]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég veit ekki hvort hægt sé að fara fram á það við hv. þingmann að hún hlusti á það sem sagt er nema hún hafi engan áhuga á að heyra það sem maður hefur að segja um þetta tiltekna mál. Þá er það náttúrlega sjálfsagt, þá getur hún bara talað eins og hún vill en ég er samt að koma hér ákveðnum upplýsingum á framfæri sem skipta máli í umræðunni, t.d. að núna er verið að bæta 11 milljörðum í vegafé.

Ég hefði haldið að hv. þingmaður vissi að staða ríkissjóðs vænkast ekkert á einum degi. (Gripið fram í.) Það er nokkuð sem hefur verið unnið að allt þetta kjörtímabil og nú sjáum við sem betur fer miklu betri stöðu. Það gefur okkur tækifæri til að auka í. Heldur hv. þingmaður að það hafi bara gerst af sjálfu sér?

Síðan er einnig rétt að benda á það varðandi fjölgun ferðamanna, sem við Íslendingar fögnum að sjálfsögðu, við fögnum því að hafa fengið þessa gróskumiklu grein hingað til landsins, vitum við ekki öll að hún hefur vaxið miklu hraðar en nokkur átti von á? Ekki nema hv. þingmaður sé svo spámannlega vaxin að hún hafi gert sér grein fyrir því fyrir þremur árum að fjöldinn yrði svo mikill sem raun ber vitni. (LRM: …spá ekki fyrir fram?)