145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

fjármálaleg samskipti ríkis og sveitarfélaga.

[12:26]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það vill svo til að hér er um að ræða sígilt umræðuefni en við ræðum það, ég og hæstv. ráðherra, á þeim degi sem fjármálaráðstefna sveitarfélaga stendur yfir, þannig að ég geri ráð fyrir að málið sé hæstv. ráðherra ofarlega í sinni og tilviljun að þessi umræða fer fram á þessum degi en ég held að það sé málinu til góðs.

Það sem mig langar til að beina sjónum að í þessari umræðu og biðja hæstv. ráðherra að bregðast við er kannski í meginatriðum sú augljóslega staða að sveitarfélögin mjög víða um land glíma við erfiðleika í sínum rekstri meðan ríkissjóður hefur haft til þess færi á að snúa við erfiðri stöðu og borga niður skuldir, þar horfa hlutirnir til betri vegar eftir efnahagshrunið.

Nú er það svo að ríki og sveitarfélög eru í raun og veru hvor sín hliðin á sama peningi, ef svo má að orði komast, þar sem um er að ræða í raun og veru mismunandi ásýnd hins opinbera gagnvart borgurum landsins sem hafa tekið að sér mismunandi verkefni, en ber að sinna þeim öllum á grundvelli tekna sem viðkomandi stjórnvald hefur með höndum að ráðstafa í þágu þessara sömu íbúa. Þá getur það auðvitað verið kúnstug staða þegar önnur hlið hins opinbera er tiltölulega vel sett en hin glímir við vanda eins og við höfum verið að sjá nú mjög víða um land.

Meðal annars erum við að tala um tekjutap sem hefur komið til af einstökum ákvörðunum og aðgerðum ríkisstjórnarinnar, til að mynda varðandi bankaskattinn og það væri gott að hæstv. ráðherra kæmi kannski aðeins inn á þau loforð sem komu frá ráðherra. Mér er fullljóst um að mál þess efnis um að bæta sveitarfélögunum þann skaða er í umhverfis- og samgöngunefnd og hefur ekki náðst þaðan út þrátt fyrir að um það hafi sérstaklega verið beðið. Það er önnur saga í sjálfu sér, en það er partur af þessari heildarmynd.

Nú er það svo að stórir málaflokkar hafa fallið sveitarfélögunum í skaut, nú síðast málefni fatlaðra. Við sjáum að það er ekki fyrir hendi viðvarandi og öruggur tekjugrunnur sveitarfélaganna til að standa straum af þeim nýju verkefnum.

Það er gríðarlega mikilvægt að þessi samskipti ríkis og sveitarfélaga séu öll í mjög föstum farvegi og að samskiptin séu því sem næst á jafningjagrunni, við séum ekki í þeirri stöðu að sveitarfélög þurfi að mæta í fjármálaráðuneytið eða til fjárlaganefndar á hnjánum til að fá verkefni fjármögnuð, heldur sé umgengnin og samtalið milli ríkis og sveitarfélaga þannig að báðir aðilar haldi fullri reisn og verkefnin séu virt í þeim samskiptum. Við sjáum hvert dæmið á fætur öðru þar sem gerðar eru lagabreytingar. Við þekkjum það, ég og hæstv. fjármálaráðherra, að gert er ráð fyrir því í verklagi að við kostnaðarmetum öll frumvörp með tilliti til þess hvaða kostnaður fellur á sveitarfélögin, en við vitum líka að það er ekki alltaf svo að það sé gert með fullnægjandi hætti og heldur ekki alltaf svo að það fylgi fé ef sýnt er fram á kostnaðaraukningu. Um þetta höfum við séð fjölmörg dæmi. Það er lýjandi fyrir sveitarstjórnarstigið að þurfa stöðugt að vera að sækja þetta gagnvart einhverjum aðila sem er eins og hærra settur í þessum samskiptum. Ég vil því biðja hæstv. ráðherra að víkja nokkrum orðum að þessari klemmu. Sjálf var ég í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga og var raunar varaformaður stjórnar sambandsins og sat í Jónsmessunefndinni þegar hún varð til á sínum tíma, þar fjölluðum við einmitt sérstaklega um þetta, að losa um spennu í samskiptunum þannig að þessi stjórnarstig væru meira á jafnræðisgrunni en þau hafa verið. Mig langar að biðja hæstv. ráðherra að bregðast við því hver hann telji að sú staða sé.

Síðan langar mig líka að biðja ráðherrann að bregðast við vangaveltum sem hafa færst í aukana undanfarin missiri sem snúast um stöðu jafn lítilla og landmikilla sveitarfélaga, Skaftárhrepps, Skútustaðahrepps og fleiri og fleiri, þar sem náttúruvernd og friðlýst svæði eru innan vébanda sveitarfélaganna en engir peningar, miklir innviðir sem eru undir álagi, vegir, fráveita, sorphirða, úrgangsmálin, við þekkjum þetta allt saman. Síðast en ekki síst er staðreyndin sú að (Forseti hringir.) algengasti ferðamannastaður á Íslandi heitir Reykjavík. Það sveitarfélag býr líka við mikið og sívaxandi álag vegna ferðaþjónustunnar en hefur ekki fengið neinar tekjur til þess að standa straum af þeirri breytingu. Mig langar að spyrja ráðherrann hvort hann sjái einhverja möguleika í þeim efnum.