145. löggjafarþing — 156. fundur,  23. sept. 2016.

störf þingsins.

[11:01]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Ein aukaafurð þess þegar Landsbanki Íslands núverandi var stofnaður var sérstakur örlætisgjörningur til handa starfsmönnum bankans sem var fært um 1% af Landsbankanum að gjöf þegar hann var stofnaður í kjölfar hruns. Það var lítil frétt núna fyrir nokkrum dögum um að Landsbankinn hygðist kaupa eigin hlutabréf, en þegar betur var að gáð er þarna um að ræða hlutabréf sem starfsmenn fengu á sínum tíma gefins. Það er ætlað að þeir muni geta selt þessi bréf nú fyrir 2 milljarða kr., þessi 1.400 hundruð. Það gerir u.þ.b. 1,5 milljónir á mann. Það liggur fyrir að framkvæmdastjórar í þessum hópi muni væntanlega geta selt bréf sín og haft upp úr krafsinu 5–5,5 millj. kr.

Þetta er ein blauta tuskan enn í andlitið á landsmönnum um eftirfara hrunsins. Það vill svo til að sá starfsmannafjöldi sem þarna fékk þennan drjúga hluta að gjöf á sínum tíma er búinn að standa sig gríðarlega vel í því að gefa eignir ríkisins, eins og Borgunarhlutann og fleiri. Það er ekki að furða að þeir skuli ganga nú í burtu með verðlaunafé eftir vel unnin störf.

Auðvitað er óþolandi að hópur manna skuli ganga í burtu með eigur ríkisins með þessum hætti. Ég vann einu sinni með grandvörum embættismanni sem orðaði hluti eins og þessa með eftirfarandi hætti: Það er auðvelt að vera örlátur á annarra manna fé.


Efnisorð er vísa í ræðuna