145. löggjafarþing — 156. fundur,  23. sept. 2016.

afgreiðsla EES-máls og hugsanlegt brot á stjórnarskrá.

[11:53]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég neyðist til að lýsa yfir ákveðnum áhyggjum af vinnubrögðum Alþingis í ljósi þess að að lokinni afgreiðslu þessa máls úr nefnd hafa tveir virtir sérfræðingar á sviði stjórnskipunarréttar stigið fram og lýst verulegum efasemdum um að afgreiðsla Alþingis standist stjórnarskrá. Eins og kom fram hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni telur Stefán Már Stefánsson lagaprófessor vinnubrögð Alþingis í þessu máli ekki ganga meðan sérstakt kerfi sé til staðar til að skera úr um hvort lög standist stjórnarskrá, og vitnar hann til hliðstæðra dæma frá öðrum löndum.

Herra forseti. Ég hef verulegar áhyggjur, verð ég að segja, af slíkum vinnubrögðum, að við séum hér að taka afstöðu til máls, alveg óháð því hvaða skoðun við höfum á efni þess, þar sem jafn þungar efasemdir hafa verið lagðar fram um að við séum að gera rétt. Það finnst mér ábyrgðarhluti.