145. löggjafarþing — 156. fundur,  23. sept. 2016.

afgreiðsla EES-máls og hugsanlegt brot á stjórnarskrá.

[11:59]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Fyrst vildi ég geta þess að þær áhyggjur sem fram hafa komið á síðustu dögum hafa svo sem legið lengi fyrir. Það var viðfangsefni stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, sem fékk málið til meðferðar í vor og skilaði af sér í síðustu viku, að fjalla um þau efni. Það var gert og skilað var umsögn til utanríkismálanefndar þar sem tekið er á þessum þáttum. Þau sjónarmið og rök sem hafa komið fram í málinu á síðustu tveimur sólarhringum eða svo hafa legið fyrir og urðu meðal annars til þess að tveir fulltrúar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd skiluðu umsögninni með fyrirvara.

Uppákoman núna í þinginu — menn hefðu getað (Forseti hringir.) gert athugasemdir við þessa málsmeðferð á miklu fyrri stigum, öll sjónarmið hafa legið fyrir lengi, það er tekin afstaða til þeirra í umsögn stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og inn á efnisþætti málsins verð ég að koma í síðari ræðu.