145. löggjafarþing — 156. fundur,  23. sept. 2016.

dagskrá fundarins og afgreiðsla mála fyrir þinglok.

[14:01]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég var að vona í vor þegar það var ákveðið eftir Panama-skandalinn að halda kosningar í haust að við á Alþingi hefðum tækifæri til að sýna gott fordæmi, við gætum sleppt öllum tafaleikjum, sleppt öllum leiðindum og það mundi borga sig fyrir ásýnd og störf þingsins að hérna mundum við haga okkar störfum þannig að allir væru sáttir við og allir hafa verið sáttir við það allan tímann síðan þá. Það hryggir mig að upplifa núna upphafið að því sem virðist vera sú lexía að það hafi verið mistök. Það hryggir mig ef ég á að þurfa að segja þingmönnum sem taka við á næsta þingi að þeir eigi aldrei að vera til friðs, eigi alltaf að vera með eins mikil leiðindi og þeir mögulega geta, það sé eina leiðin til að kreista fram forgangsröðun ríkisstjórnarinnar um hvaða mál eigi að klára. Það er lexía sem ég vona að ég þurfi ekki að veita neinum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)