145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[14:57]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það er farið að síga í stjórnarandstöðuna og ekki óeðlilegt þegar við hugsum til þess að í morgun var boðað að nýsamþykktri starfsáætlun þingsins til 29. september yrði kippt úr gildi. Það er ekki ásættanlegt, það er ekki einu sinni búið að ræða það með formlegum hætti við stjórnarandstöðuflokkana og þingflokksformenn. Það er líka ástæða til að velta því upp hvort slíkir fundir séu fyrirhugaðir. Ég spurði um það í morgun hvort þingflokksformenn og forseti ætluðu að setjast niður til þess að reyna að finna einhvern flöt á þessu máli. Því var ekki svarað. Það er ekki gott fyrir samfélagið, það er ekki gott fyrir þingið og það er heldur ekki gott fyrir ríkisstjórnina að vera hér með risavaxin mál og halda að hægt verði að troða þeim í gegnum þingið á örskömmum tíma. Það er enginn bragur á því.

Ég vil leyfa mér að segja að ef núverandi stjórnarliðar (Forseti hringir.) sem voru í stjórnarandstöðu á síðasta kjörtímabili, stæðu frammi fyrir viðlíka væri hávaðinn ögn meiri en verið hefur hér bæði í vor og núna.