145. löggjafarþing — 159. fundur,  28. sept. 2016.

störf þingsins.

[10:39]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar í nokkrum orðum að víkja að velferðarkerfinu. Eitt af því sem einkennir íslenskt samfélag sem betur fer er að hér er sterkur samfélagssáttmáli fyrir hendi um velferð. Í hvert skipti sem við göngum til kosninga, sama hvort það er á vegum sveitarfélaga eða hvort það er til Alþingis eða sveitarstjórna, er umfjöllunin um velferðina iðulega kjarni umræðunnar. Í fyrsta lagi það og svo hvernig við viljum standa straum af þeim útgjöldum.

Kjarninn í góðu velferðarkerfi og góðri velferðarstefnu er hugsjónin um jöfnuð og hugsjónin um að allir eigi rétt á því að lifa með reisn óháð félagslegum aðstæðum, aldri, búsetu, kyni o.s.frv. Allar aðgerðir stjórnvalda ættu þá með réttu að miða að því að draga úr þessum aðstöðumun. Af hverju er það? Er það til þess að samfélagið sýni með einhverjum hætti góðmennsku eða gæði gagnvart borgurum landsins og íbúum landsins? Nei, markmiðið með sterku velferðarkerfi er að tryggja raunverulega þátttöku allra borgara í öflugu samfélagi. Það er þátttakan, aðgengið og rétturinn til þess að vera skapandi og þátttakandi í samfélaginu, sem á að vera markmiðið með sterku velferðarkerfi. Velferðarkerfið er ekki fyrst og fremst útgjaldaliður heldur leið til að tryggja að samfélagið njóti krafta allra, og allra jafnt.


Efnisorð er vísa í ræðuna