145. löggjafarþing — 159. fundur,  28. sept. 2016.

framhald þingstarfa.

[15:00]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég ætla að spyrja, þar sem tilefni er til, núna er klukkan þrjú og það er miðvikudagur. Á morgun mun þinginu ljúka samkvæmt starfsáætlun, sem gerist augljóslega ekki. Ég hef enn þá engar fréttir fengið af því að neitt sé að gerast eða að einhver samtöl eigi sér stað. Í gær var jú eitthvað talað um lokin á þingfundi. Meira veit ég ekki. Mig langar til að biðja virðulegan forseta um að láta okkur vita ef eitthvað nýtt er að frétta í þeim efnum, hvernig framvindan á að vera. Forgangsröðin í dag er augljós miðað við dagskrána en ég átta mig ekki á hvernig framhald þingsins verður og ítreka það sem ég sagði í gær: Ég mun koma hingað upp og spyrja þar til svör koma fram sem varpa einhverju ljósi á málið.