145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

fjárhagsstaða heilsugæslunnar.

[11:02]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Það er rétt að heilbrigðismálin eru nú sem endranær á forsíðum fjölmiðla, blaða, með ýmsum hætti. Ég deili alveg áhyggjum hv. þingmanns af því með hvaða hætti við fjármögnum þetta kerfi. Ég vil þó segja í ljósi þeirrar umfjöllunar sem hv. þingmaður gerir hér að umtalsefni eftir svæðisstjóranum í Grafarvogi að sú framsetning sem kemur í það minnsta fram í Fréttablaðinu og vitnað er til er byggð á nokkrum misskilningi. Þarna er verið að gera breytingar á fjármögnun heilsugæslunnar, ég geri ráð fyrir því að hv. þingmaður þekki það kerfi, bæði því sem lýtur að kröfulýsingu og fjármögnum heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. fjármunum verði dreift út í rauntíma eftir sömu formúlu á allar stöðvar, eftir skráningu á stöðvum, sjúkdómabyrði, aðgengi og gæðaþáttum. Þetta mun leiða til þess að fjármunir sem áður dreifðust með ákveðnum hætti munu dreifast með öðrum hætti, sem þýðir að sumar stöðvar lækka í fjárveitingum meðan aðrar hækka. Ég sé að þeir sem illa skilja þetta glotta við tönn, en það þarf þá að gefa þeim sérstakt færi á að kynna sér út á hvað þetta gengur.

Það liggur alveg fyrir að það eru engin áform önnur uppi en þau að standa við þau fyrirheit sem gefin voru í góðu samstarfi stjórnar og stjórnarandstöðu þegar breytingarnar voru gerðar á lögunum um sjúkratryggingar. Það eru engin áform önnur uppi en að standa við þau. Ég vil líka nefna það í tengslum við þetta, bara til að minna á það, að breytingarnar sem voru gerðar að umtalsefni í Fréttablaðinu taka ekki gildi fyrr en 1. febrúar á næsta ári. Fjárlög næsta árs eru ekki komin fram, frumvarp til fjárlaga.