145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

starfsáætlun og framhald þingstarfa.

[13:44]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Það er sérkennileg staða að vera í, að vera vinnandi á þessum vinnustað, og maður er að biðja um samtal um það hvernig við getum klárað málin hér á þingi, hvernig við ætlum að haga þessu eins og menn gera á vinnustöðum út um allt. Ég hef margoft lent í þessu á öðrum vinnustöðum. Maður hefur samband við aðra og menn setjast niður og funda. En hér vill enginn taka samtalið og ef við stjórnmálamenn værum ekki búin að fá þykkan skráp mundi maður taka þessu verulega persónulega. Af hverju vilja menn ekki tala við okkur? Þó að Framsóknarflokkurinn eigi í sínum vandamálum þá erum við með forustumann Sjálfstæðisflokksins sem er fjármálaráðherra, leiðtogi hins stjórnarflokksins. Getur hann ekki talað við okkur? Hvað er þetta með að svara ekki fundarboði? Mér finnst það verulega dónalegt. Ég held það þekkist hvergi á vinnumarkaði að fólk tali ekki saman. Og að þurfa að standa hér og (Forseti hringir.) kvarta yfir þessu í ræðustól fyrir framan þjóðina, það er algerlega út í hött. Það er bara eins og við séum einhverjir apakettir, ekki við heldur meiri hlutinn.