145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

starfsáætlun og framhald þingstarfa.

[13:56]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Mér dettur í hug af því hér eru nemendur á pöllum og nokkrir kennarar og fyrrum skólameistarar hérna inni að maður getur eiginlega sett þetta í samhengi við það. Segjum að kennari mæti í kennslustund en segi ekkert um hvað hann ætli að fjalla, hvað eigi að vera á dagskránni eða hvað nemendur eigi að læra, nemendur fái kannski að vita það rétt fyrir miðnætti en eigi að mæta átta í fyrramálið. (Gripið fram í: Og svo er próf.) — Og svo er próf, já, þetta er eiginlega svolítið svoleiðis.

Það er nákvæmlega þetta sem við stöndum frammi fyrir. Það sem mér finnst líka óboðlegt er að nefndarformenn eru farnir að boða til funda í næstu viku þrátt fyrir að starfsáætlun sé útrunnin í dag. Það er líka eitthvað til að velta fyrir sér. Er í lagi að hér séu boðaðir fundir þegar ekki hefur legið fyrir samtal við stjórnarandstöðuna um hvernig og hvort það verður þing í næstu viku, sem við gerum væntanlega orðið ráð fyrir? Mér þykir það a.m.k. ekki. Ég trúi því ekki að meiri hlutanum í dag þætti (Forseti hringir.) það heldur ef þeir væru í okkar stöðu.