145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[16:07]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Jú, ég get alveg tekið undir með hv. þingmanni varðandi þá hugsun að við sem þjóð og samfélag verðum að fara að taka almenningssamgöngur fastari tökum en við gerum í dag og taka fleiri samgönguleiðir inn í þann málaflokk og ekki bara með almenningsvögnum eða strætó eins og við köllum það heldur að það sé líka í boði varðandi flugsamgöngur. Við búum í svo dreifbýlu landi að það er auðvitað allt annar handleggur að fara frá Akureyri, Egilsstöðum eða Ísafirði hingað á höfuðborgarsvæðið þangað sem flestir landsmenn þurfa að sækja reglulega ákveðna þjónustu og geta farið á milli á innan við klukkutíma eða þurfa að keyra hátt í sex tíma eða meira til þess að komast til höfuðborgarinnar með tilheyrandi vinnutapi og öðru því um líku. Ég tel að það eigi að hugsa þetta algjörlega upp á nýtt. Það er ekki hægt að stilla öllu upp í samkeppnisumhverfi. Við þekkjum það sem lítil þjóð og við þurfum auðvitað að nýta okkur ýmis samlegðaráhrif sem lítil þjóð til þess að láta hlutina ganga upp. Það eru ekki allir á hinu fullkomna markaðssvæði þar sem hægt er að setja allt í samkeppnisgír. Ef við ætlum að búa í þessu landi yfir höfuð verðum við að lyfta þessu á hærra plan þannig að við séum sammála um að það borgi sig að nýta gæði landsins allt í kringum landið, mannvirkin og þá þjónustu sem er þar og búa (Forseti hringir.) fólki á landsbyggðinni þau skilyrði að það geti líka komið hingað á höfuðborgarsvæðið og sótt þá þjónustu sem það þarf á að halda.