145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[16:40]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem hv. þingmaður kom inn á hérna alveg í blálokin er held ég útfærsla á svokölluðu beinu lýðræði sem við viljum stunda, sjálfsákvörðunarréttinum, og það er að sjálfsögðu fólkið í nærumhverfinu sem á að taka ákvörðunina þegar upp er staðið. Ég held að sóknaráætlun sé einmitt eitthvað sem við ættum að vinna betur að. Þess fyrir utan var svo áhugavert í umræðum í nefndinni við samtök sveitarfélaga að um leið og sveitarfélög á Austurlandi og Vesturlandi byrjuðu að tala saman þá komumst við að því að þau voru að fást við nákvæmlega sömu vandamálin. Þetta snýst ekki um að lofa einum vegi hér eða þar, þetta snýst um að hafa heildstæða hugsun, heildstæða hugsjón. Þess vegna held ég að svona pólitískt pot í samgönguáætlun sé mögulega það hættulegasta sem hægt er að gera fyrir vegakerfið. Það væri betra að færa ákvörðunina nær fólki, nær þeim sem búa á svæðinu, nær þeim sem þurfa á þjónustunni að halda, að það taki í raun og veru lokaákvörðunina. Hins vegar er það svo ekki.

Mér finnst ég ekki vera dómbær á það hvaða vegi eigi að laga sem fulltrúi í hv. umhverfis- og samgöngunefnd nema ef ég hafi komið þangað. Þess vegna tek ég t.d. Látrabjarg sérstaklega fyrir af því ég hef komið þangað, hef upplifað þetta. Þess vegna er svo mikilvægt að við nýtum þetta form, lýðræðiseflingu, leyfum fólkinu sem býr á svæðinu að reyna að forgangsraða þeim verkefnum sem þykja brýnust.

Síðan þurfum við að fara að líta á vegi meira út frá verkfræðilegum forsendum, út frá því hvað er öruggt af því að vegirnir okkar eru ekki öruggir. Þeir eru langt frá því að vera öruggir. Við eigum kannski tvo örugga vegi, restin er bara stórhættuleg. Þess vegna segi ég að sumum þessara vega eigum við bara að loka ef við ætlum ekki að laga þá. Það er bara komið að því vegna þess að öryggi þarf að vera ofar einhverjum sérhagsmunum. Það er bara þannig.