145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[16:56]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið og ég held að sé mikilvægt að hún, rétt eins og við öll hin, notum tímann fram að atkvæðagreiðslu í þessu máli til að íhuga hvort ekki sé rétt að við styðjum, þ.e. allt þingið, breytingartillögu okkar til þess að gera betur í viðhaldsmálum, því að þetta er orðið dauðans alvara. Við erum farin að horfa hér á slys sem leiða til varanlegra örkumla eða jafnvel dauða allt of oft vegna þess að viðhaldi er ábótavant og öryggissjónarmið eru fyrir borð borin. Ég held að það sé afar mikilvægt að við skoðum það sameiginlega.

Hin spurningin til hv. þingmanns er sértækari, ef svo má að orði komast, og tengist vegagerð yfir Öxi, þ.e. að við setjum það niður og þá nánast meira í texta en tölum. Í breytingartillögu minni hlutans segjum við að vegagerð yfir Öxi fylgi strax á eftir framkvæmdum við Berufjarðarbotn þannig að það sé í eðlilegu framhaldi af þeirri vinnu. Við vitum að heimamenn hafa beðið mjög lengi eftir vegaframkvæmdum við Berufjarðarbotn og að þeim verði lokið og miklar væntingar eru til þess að veg yfir Öxi vindi eitthvað fram. Það er gríðarlega mikilvægt upp á tengingar á þessu svæði, sem ég þarf ekkert að segja hv. þingmanni neitt um af því að þetta er hennar heimavöllur.

Þetta er auðvitað alveg risastór framkvæmd, við vitum það, og Vegagerðin segir að þetta séu upphæðir upp á 2,4 milljarða. Það dettur engum í hug að setja slíkar tölur inn á áætlunina af því að þá værum við í raun komin í allt annað umhverfi. Það sem við leggjum til í breytingartillögu okkar er undirbúningur og útboð á árinu 2018 með 50 millj. kr., þ.e. eingöngu þannig að við sýnum að við ætlum að láta þá framkvæmd fylgja fast á eftir með nánast táknrænni upphæð.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hún sé tilbúin (Forseti hringir.) til þess að hugsa um hvort ekki sé vit í að við sammælumst um það mál.