145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[17:49]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þá vaknar spurningin af hverju við erum yfir höfuð að leggja fram langtímaáætlun fyrir árin 2015–2026 ef við metum það svo að við getum hvort eð er ekki séð fram í tímann. Í mörg ár hefur ekki verið nein samþykkt samgönguáætlun og nú erum við loksins að komast á þann stað að við ætlum að samþykkja samgönguáætlun. Mér finnst það til bóta, mér finnst ekki gott að við séum að ákvarða samgönguframkvæmdir í gegnum fjárlagaliði, mér finnst það algerlega óásættanleg vinnubrögð.

Síðan má segja að löggjafinn sem fer með fjárveitingavaldið lýsi sínum sjónarmiðum í tillögum meiri hlutans og þá veltir maður fyrir sér hvort það þurfi ekki einhvern veginn líka meira samræmi þegar við erum að reyna að setja niður langtímaáætlanir. Ég held að það væri gríðarlega mikill akkur í því fyrir okkur öll í kringum landið að þessi forgangsröðun lægi miklu skýrar fyrir og að við sæjum á einhvern hátt meira samræmi í gerðum framkvæmdarvaldsins og löggjafarvaldsins þegar kemur að þessum liðum. Það er auðvitað framkvæmdarvaldið sem í raun og veru mótar þá stefnu sem hér er lögð fyrir þingið og tekur síðan breytingum.

Hv. þingmaður ræðir hér um að þetta sé myndarleg afgreiðsla og þá spyr ég: Telur hv. þingmaður það framlag til samgöngumála sem hlutfall af vergri landsframleiðslu, sem nú stendur á árinu 2015 í sama hlutfalli og árið 2011 sem var mikið niðurskurðarár í samfélaginu, ásættanlegt? Telur hv. þingmaður e.t.v. að við þurfum að stórauka þessi framlög á næstu árum? Við erum í sögulegu lágmarki þegar kemur að framlögum til samgöngumála sem hlutfalli af vergri landsframleiðslu.