145. löggjafarþing — 161. fundur,  3. okt. 2016.

starfsáætlun þingsins.

[10:44]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég verð að taka undir það sjónarmið að það væri skynsamlegast að nota tíminn hér framan af degi og þess vegna til kvölds ef með þarf til þess að menn setjist niður og reyni að finna saman út úr því hvernig á að nota þessa örfáu sólarhringa sem hægt er, boðlegt er, að halda þingfundum áfram. Ég var á nefndarfundi í morgun, eins og sjálfsagt fleiri, og þar var staðan þannig að fyrst voru á réttum tíma mættir tveir og síðan þrír alllengi, svo fjórir og fundartíminn að verða hálfnaður þegar nefndin var löglega skipuð, þ.e. meiri hluti var kominn til staðar. Þetta á ekkert eftir að gera annað en versna. Það verður nógu erfitt að halda einhverjum lágmarksbrag á þessu hér í þessari viku. Miðað við það sem ég hef séð og fram undan er hjá okkur t.d. í Norðausturkjördæmi af atburðum þá er óhugsandi að vera með þinghald í næstu viku. Það er bara ekki hægt. Það eru á hverjum einasta degi fjölmiðlafundir eða almennir opnir fundir þar sem óskað er nærveru allra flokka vítt og breitt um kjördæmið. Það mun ekki verða þannig að stjórnarliðar verði þar og við hin hér að reyna að halda áfram þingstörfum. Forseti verður að horfast í augu við það að við höfum þessa örfáu sólarhringa og það verður að vera raunsætt mat á því hvað er hægt að gera á þeim tíma.