145. löggjafarþing — 161. fundur,  3. okt. 2016.

rammaáætlun.

[11:17]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Það er rétt að hæstv. umhverfisráðherra fór eftir lögunum og vann tillögu þá sem lögð var fyrir þingið í góðu samráði við mig. Ég get alveg haft allar skoðanir á þessu ferli og vil fyrst segja að ég er mjög hugsi yfir því hvert við erum komin með rammaáætlun. Það markmið sem lagt var upp með fyrir tveimur áratugum, rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúruauðlinda, var liður í því að ná sátt um þennan mikilvæga málaflokk þar sem menn hafa ýmsar skoðanir. Sáttin átti að vera um að við ætluðum að kortleggja náttúruauðlindirnar með þessi sjónarmið í huga; hvað skal nýta, hvað skal vernda, hvað skulum við bíða með þar til frekari upplýsingar liggja fyrir. Ég vil segja að mér finnst, og ég er hugsi yfir því, okkur ekki hafa tekist í þessum sal að ná þeirri sátt.

Hvað varðar þá tillögu sem hæstv. umhverfisráðherra lagði fyrir get ég sagt að mér þótti hún það skásta í stöðunni. Þess vegna studdi ég að hún yrði lögð fyrir þingið. Mér fannst mikilvægt að verkefnisstjórnin skilaði af sér. Ég hef gagnrýnt, gerði það við vinnslu málsins, að faghópum 3 og 4 hafi ekki verið gert að skila og verkefninu þannig, má segja, ekki lokið. En eins og staðan var við lok þessarar vinnu taldi ég og tel enn að það hafi verið rétt að verkefnisstjórnin skilaði af sér og ég studdi það að hæstv. umhverfisráðherra legði tillöguna fyrir þingið.