145. löggjafarþing — 161. fundur,  3. okt. 2016.

réttur til fæðingarorlofs.

[11:21]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Mér finnst ég hafa hitt of marga sem hafa með einhverjum hætti lent á milli þegar kemur að réttinum til að fá fæðingarorlof. Það er miðað við ár, ákveðið tímabil þar sem litið er til þess hvort viðkomandi hefur verið í vinnu og hversu mikið hann hefur unnið. Ef fólk er t.d. í 50% námi skerðast réttindi til þess mikið. Ein kona sem ég hitti var að vinna í hlutastarfi og af því að hún fór niður fyrir 25% einn mánuðinn hafði það veruleg áhrif á það hvað hún fékk í fæðingarorlof. Önnur kona sem ég þekki var í fæðingarorlofi, síðan ekki á vinnumarkaði í eina tvo mánuði af því að hún var með mörg börn en var ekki skráð atvinnulaus og þegar hún síðan verður ólétt aftur, kannski ekki alveg á rétta tímanum, fær hún lægra fæðingarorlof af því að hún var ekki á vinnumarkaði í tvo mánuði. Mér finnst þetta of tilviljanakennt og ég fór að hugsa af hverju það er svona rík áhersla á að vinna sér inn réttinn á fæðingarorlofi. Ég þarf ekkert að vinna mér inn rétt til að fara í háskóla eða framhaldsskóla eða leggjast inn á spítala eða hvað það er. Hver ákveður að starfshlutfallið eigi að vera 25% en ekki 20%, svo dæmi sé tekið? Einnig ef fólk er að koma heim t.d. frá hinum norrænu ríkjunum getur verið erfitt að komast inn í kerfið. Samkvæmt þessari reglugerð, og ég ætla ekki að láta eins og ég skilji hana út og inn, þarf maður að vera kominn með starf tíu dögum eftir að maður er kominn til landsins.

Við viljum að fólk eignist börn og við viljum ekki að það sé tilviljanakennt hvað er að gerast þarna 18 mánuðum áður, það geta verið ýmsar ástæður fyrir því að fólk er t.d. ekki á vinnumarkaði, kannski er það að sinna veikum ættingja eða hvað veit ég. Af hverju fá ekki allir almennilegt fæðingarorlof? Af hverju þarf að ávinna sér réttinn til þess að fá sómasamlega upphæð? Ef fólk hefur ekki verið á vinnumarkaði eða hefur verið í 50% námi þá (Forseti hringir.) fær það 50 þús. kr. Eiga barnabæturnar að vinna þetta upp eða hvernig hugsum við þetta kerfi eiginlega?