145. löggjafarþing — 163. fundur,  4. okt. 2016.

störf þingsins.

[15:43]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Nú tala ríkisstjórnarflokkarnir um hversu gott fólk hafi það, hversu mikill efnahagsbatinn sé og að staða fólks hafi almennt batnað, þ.e. eignastaða þess og annað slíkt. Það er fyrst og fremst vegna þess að fasteignaverð hefur hækkað. Það er því miður svo að tölur Hagstofunnar sýna að það búa tvær þjóðir á Íslandi, venjulegt launafólk, sem skuldar töluvert, og þeir sem lifa á fjármagnstekjum og eiga miklar eignir. Við höfum oft rætt það í þessari pontu að auðurinn skilar sér ekki jafnt á milli hópa í samfélaginu. Það er mjög ítarleg og góð umfjöllun núna í Kjarnanum um þetta mál þar sem fram kemur að hrein eign fátækari helmings þjóðarinnar er neikvæð um 211 milljarða á síðasta ári, þ.e. rúmlega 100.000 manns skulda 211 milljörðum meira en þeir eiga.

Hreina eignin sem orðið hefur til frá árinu 2010 er rúmlega 527 milljarðar og hefur runnið til ríkustu 10% í landinu, sem við höfum gjarnan rætt í þessari pontu. Bara í fyrra jókst auður þessarar tíundar, þ.e. þessara 10% fólks, um 185 milljarða, eða rétt rúmlega 9 millj. kr. á hvern einstakling sem tilheyrir þessum hópi. Það eru gríðarlega miklir fjármunir. Ef við ræðum hér um börn sem búa við fátækt — og ég vona að þingmenn hafi ekki gleymt skýrslu UNICEF sem við fengum afhenta í janúar og sagði okkur að um 6.000 börn byggju við fátækt — kemur í ljós að þrátt fyrir bætta eignastöðu er þarna á meðal barnafólk sem býr við mjög bág kjör og á ekki endilega peninga í vasanum þó að eignir þess hafi (Forseti hringir.) aukið verðmæti sitt sökum þess að fasteignaverð hefur hækkað. Svo er það auðvitað mjög mismunandi á milli landshluta. Það hefur hækkað hlutfallslega mest hér, sem gerir stöðu fólks hér á höfuðborgarsvæðinu betri.


Efnisorð er vísa í ræðuna