145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[17:52]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur fyrir ræðuna. Hún koma víða við í yfirferð sinni enda um risastórt mál að ræða, sem samgönguáætlun til nokkurra ára er. Margt þarf að hafa undir þar og hafa athyglina á. Mér fannst það mikilvægur fókuspunktur í ræðu hennar sem snýr að öryggismálunum. Ég held að seint verði hægt að segja að of mikil áhersla sé lögð á þau. Ég held einmitt að þetta þurfi annars vegar að skoðast í því ljósi hvernig við þróum vegakerfið okkar áfram, förum í nýframkvæmdir og bætum öryggið þannig, og hins vegar það sem við gerum með því að sinna viðhaldi.

Ég er hjartanlega sammála því sem hv. þingmaður sagði um að það kosti að láta viðhaldið sitja á hakanum. Ég held að við hv. þingmaður séum hjartanlega sammála um að þar þurfi að setja meiri peninga inn. Við þurfum því ekki beinlínis að ræða þá hlið en mig langar hins vegar að spyrja hv. þingmann aðeins nánar út í mörkuðu tekjurnar. Ég skil það sem svo að hún telji að þær eigi að fylgja verðlagi. En mig langar einnig að spyrja hv. þingmann hvort ekki sé jafnframt nauðsynlegt að þær verði látnar renna óskiptar til samgöngumála eða vegamála.