145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[19:43]
Horfa

Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svar við mínu andsvari. Mig langar hins vegar að taka þetta aðeins lengra vegna þess að í mínum huga, og í huga okkar allra, eru flugsamgöngur og landsamgöngur eitt og sama samgöngukerfið, þ.e. hluti af því að flytja fólk milli landshluta. Ef byggja á upp ferðaþjónustu á Austfjörðum er mjög mikilvægt að hafa góð tengsl; flugvöllurinn á Egilsstöðum skiptir þar mjög miklu máli og Breiðdalsheiðin er út af fyrir sig framlenging af honum, ef við viljum skoða málið þannig.

Ég þekki ekki skoðanir hv. þingmanns á veru flugvallarins í Vatnsmýri, en flestir sem hér hafa stigið í pontu og koma utan af landi eru mjög andvígir því að flytja flugvöllinn. Fyrir mér er það beinlínis byggðamál, mjög mikilvægt byggðamál, að flytja innanlandsflugvöllinn suður í Keflavík. Við vitum öll og þekkjum það af eigin ferðahegðun að ef þú þarft að fara inn í borg og stoppa þar þá eru litlar líkur á því að þú haldir áfram til fjarlægra staða, eins og til dæmis norðausturhorns landsins. En ef þú kemst þangað í beinu flugi frá Keflavík, eða frá alþjóðaflugvellinum hvar sem hann er staddur, aukast líkurnar á því. Mér finnst það vera byggðasjónarmið og að það styrki samkeppnisstöðu landsbyggðarinnar að innanlandsflugvöllurinn fari úr Vatnsmýrinni og verði nær alþjóðaflugvellinum.

Ég hef sjálf búið vestur á fjörðum og þekki mjög vel hversu mikilvægar flugsamgöngur eru fyrir þá sem búa úti á landi. En í samhengi hlutanna, í samhengi lengdar ferðalagsins, er ferðin frá Keflavíkurflugvelli til Reykjavíkur, fyrir þá sem búa til dæmis austur á landi, (Forseti hringir.) eða á Austfjörðum, svo stutt. Þess vegna spyr ég: Hefur hv. þingmaður hugleitt þetta út frá þessu sjónarhorni?